Nýir frambjóðendur í sjónvarpi
Galdurinn við að standa sig vel í sjónvarpsumræðum ræðst ekki af því hvort fólk hafi áður tekið þátt í slíkum umræðum heldur af því hvort það hefur eitthvað að segja
Í Staksteinum Morgunblaðsins fimmtudaginn 22. mars var sagt frá samtali sem Sindri Sindrason fréttamaður á Stöð 2 átti við efsta frambjóðanda á borgarstjórnarlista Viðreisnar, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur. Sindri bað hana að segja frá helstu málum framboðsins:
Þórdís Lóa: „Okkur er mjög umhugað að setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti.“
Sindri: „Sem þýðir...?“
Þórdís Lóa: „Sem þýðir að við ætlum að mæta þjónustuþörf fólks í borginni í þessu daglega lífi. Við fæðumst og deyjum í þessari borg og við förum í gegnum þessi lífsskeið öll og við þurfum ákveðna þjónustu og við höfum ákveðnar þarfir á þessari vegferð okkar og þarna viljum við vera. Við viljum bjóða upp á góða þjónustu, framúrskarandi menntun og heildstætt skipulag og samgöngur. Og við erum bara mjög ákveðin í því að gera bara Reykjavík að bestu borg í Evrópu.“
Sindri: „Þetta var ofboðslega vítt og breitt. En sagði okkur ofboðslega lítið. Fyrir hverju brennurðu?“
Þórdís Lóa: „Við brennum fyrir fólkinu. Við brennum fyrir iðandi mannlífi, borginni sem að er að þroskast og stækka en samt þessari nálægð við náttúruna og við brennum fyrir að mæta þörfum íbúanna.“
Sindri: „Ókei, en helsta málefnið sem að þú vilt ráðast í og telur að, ja sé ekki verið að sinna akkúrat núna?“
Í Stakseinum segir að Þórdís Lóa hafi svarað því til að það væru menntamálin án þess að geta sagt til um hvað ætti að gera á því sviði. Fljótlega hafi Sindri slegið botn í viðtalið eftir að hafa þó ítrekað þá skoðun sína að hún segði „rosalega lítið“.
Einhverjir hafa orðið til að afsaka Þórdísi Lóu með þeim orðum að ekki sé við því að búast að þeir sem bjóði sig fram í fyrsta sinn geti skýrt frá því til hvers þeir séu í framboði. Sé það svo ættu þeir að minnsta kosti að geta skýrt stefnu flokksins. Þórdís Lóa gat það einfaldlega ekki af því að Viðreisn hefur ekki mótað sér neina stefnu í borgarmálum.
Myndin er af vefsíðunni reykjavik.is
Hildur Björnsdóttir skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hún býður sig einnig fram í fyrsta sinn núna eins og Þórdís Lóa. Hildur ræddi leikskólamál við Skúla Helgason, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í Kastljósi fimmtudaginn 22. mars. Hún stökk beint út í djúpu laugina og stóð sig með prýði þegar hún afhjúpaði sýndartillögur meirihluta borgarstjórnar og sagði:
„Fyrir kosningar 2014 lofaði Samfylkingin því að öll börn fengju pláss á leikskóla við 18 mánaða aldur. Árið 2016 birtist grein í Fréttablaðinu með fyrirsögninni öll 18 mánaða börn fá leikskólapláss og þar var því lofað að haustið 2016 myndu öll 18 mánaða börn fá leikskólapláss. Ári síðar eru biðlistarnir búnir að tvöfaldast. Haustið 2017 eru tæplega 900 börn á biðlista og svo bera þau þessa tillögu á borð fyrir okkur núna og ætlast til þess að við trúum því að þegar ekkert var gert á þessu kjörtímabili ætli þau að leysa þetta næst. Mér finnst þetta bara mjög ótrúverðugt, ég verð að segja það.“
Í máli sínu skýrði Hildur einnig stefnu sjálfstæðismanna í leikskólamálum að skýran og greinargóðan hátt og lét ekki Einar Þorsteinsson, stjórnanda umræðnanna, slá sig út af laginu með spurningum sínum.
Galdurinn við að standa sig vel í sjónvarpsumræðum ræðst ekki af því hvort fólk hafi áður tekið þátt í slíkum umræðum heldur af því hvort það hefur eitthvað að segja. Á því prófi féll frambjóðandi Viðreisnar en frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins stóðst það með glæsibrag.