30.11.2017 18:37

Ný ríkisstjórn sér dagsins ljós

Þegar saminn er tæplega 6.000 orða texti sem sameiginlegt skjal þriggja ólíkra stjórnmálaflokka er ekki óeðlilegt að óljóst sé um túlkun ýmislegs sem sagt er.

Á dögunum frá 6. nóvember til 22. nóvember árið 2017 sátu formenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna (VG) á stöðugum fundum og sömdu 16 blaðsíðna sáttmála (5639 orð) um ríkisstjórnarsamstarf flokkanna sem samþykktur var af stofnunum flokkanna miðvikudaginn 29. nóvember. Þrátt fyrir þessa miklu vinnu formannanna við að ganga frá öllum þráðum lýstu tveir þingmenn VG samt andstöðu við stjórnarsáttmálann.  Hann var þó samþykktur af flokksráði VG með 81% atkvæða. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn Framsóknarflokksins samþykktu stjórnarsáttmálann einum rómi.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kemur af fyrsta ríkisráðsfundi sínum.

Í dag, fimmtudaginn 30. nóvember, var stjórnin síðan formlega mynduð og þá kom í ljós að þingmennirnir tveir í VG ætla að sætta sig við niðurstöðu flokksráðsfundarins en engu að síður þykir Katrínu Jakobsdóttur öruggara að fá utanþingsmann í sæti umhverfisráðherra til að hafa fleiri fótgönguliða til að sinna störfum í alþingi.

Ráðherralið Sjálfstæðismanna er sama og áður að Jóni Gunnarssyni frádregnum þar sem flokkurinn hefur nú fimm ráðaherrastóla í stað sex áður. Páll Magnússon er óánægður fyrir hönd Suðurlands að verða ekki ráðherra en styður ríkisstjórnina og sáttmála hennar.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, sagði í ræðu á flokksráðsfundinum um stjórnarmyndunina: „Sáttmáli á milli pólanna í íslenskum stjórnmálum þarf að vera skýr, sérstaklega í þeim málum þar sem flokkana greinir mest á. Þar þarf að vera naglfast hvernig eigi að vinna úr málunum.“

Þetta er dálítið sérstök afstaða til sáttmála sem gerður er á milli flokka sem lengst hafa myndað ólíka póla í íslenskum stjórnmálum: Sjálfstæðisflokksins og VG. Sáttmálinn hlýtur að bera með sér að um málamiðlun sé að ræða. Enginn getur nokkru sinni vænst þess að stjórnarsáttmáli ólíkra flokka sé saminn með það í huga að einn aðili nái öllu fram á kostnað viðsemjanda. Svo er alls ekki.

Þegar saminn er tæplega 6.000 orða texti sem sameiginlegt skjal þriggja ólíkra stjórnmálaflokka er ekki óeðlilegt að ekki sé alls staðar kveðið þannig að orði að ekki megi túlka það sem sagt er á ólíkan hátt eða bera fyrir sig að orðalagið sé of óljóst.

Í upphafi stjórnarsáttmálans segir meðal annars:

„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess. [...]

Löggjafar-,  fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verður styrkt á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.“

Forvitnilegt verður að fylgjast með framkvæmd þessa þáttar stjórnarsáttmálans eins og annars sem í honum stendur. Löngum hefur verið rædd nauðsyn þess að efla hlut alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Þar ráða störf þingmanna sjálfra að sjálfsögðu mestu en ekki fjölgun starfsmanna þingsins eða meira fé til umgjarðarinnar.