9.4.2024 11:03

Ný ríkisstjórn boðuð

Á meðan menn bíða niðurstöðu vegna stjórnarmyndunar komast þeir ekki hjá að skrifa og skrafa eitthvað um það sem snertir málið. 

Nú að morgni 9. apríl er beðið niðurstöðu í viðræðum stjórnarflokkanna um skipan ráðherrasæta eftir að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt sunnudaginn 7. apríl.

Fréttir eru um að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, verði fjármálaráðherra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins verði utanríkisráðherra. Þá er sagt að Svandís Svarsdóttir VG verði innviðaráðherra. Spurning er hver tekur við af henni sem matvælaráðherra.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur boðað vantrauststillögu á Svandísi sem matvælaráðherra vegna þess að hún gaf út reglugerð gegn hvalveiðum án þess að lög heimiluðu henni það. Tillaga Ingu missir marks fari Svandís úr matvælaráðuneytinu.

Allt er þetta sagt með fyrirvara um að þingflokkar framsóknarmanna og VG samþykki framhald stjórnarsamstarfsins.

STJR8A9805

Árið 2004, 15. september, fluttist forsætisráðuneytið á milli stjórnarflokka þegar Halldór Ásgrímsson Framsóknarflokki varð forsætisráðherra í stað Davíðs Oddssonar Sjálfstæðisflokki og síðan gerðist það aftur 15. júní 2006 þegar Geir H. Haarde Sjálfstæðisflokki tók við embættinu af Halldóri. Þá urðu til þrjú ráðuneyti á einu og sama kjörtímabilinu.

Tæpt ár var til kosninga vorið 2007 þegar Geir varð forsætisráðherra og að þeim loknum myndaði hann ríkisstjórn með Samfylkingunni. Nú rennur kjörtímabilið ekki út fyrr en í september 2025. Hvort flokkarnir þrír sem nú stjórna hafa komið sér saman um að starfa saman til þess tíma eða efna til kosninga fyrr kemur í ljós.

Hér var vakið máls á því þegar ljóst varð að Katrín Jakobsdóttir byði sig fram til forseta að í stað þess að eiga samstarf við átta þingmenn VG gætu forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks náð í átta þingmenn til stuðnings við ríkisstjórn með samkomulagi við klofningsflokkana, Viðreisn úr Sjálfstæðisflokki og Miðflokkinn úr Framsóknarflokki.

Ástæðulaust er að efast um að þessi kostur hafi verið kannaður undanfarna sólarhringa. Enginn hefur hins vegar minnst á það opinberlega svo allt hefur þetta verið í óformlegum trúnaði eins og svo margt sem gerist á tímum sem þessum þegar allir pólitískir boltar eru á lofti.

Á meðan menn bíða niðurstöðu vegna stjórnarmyndunar komast þeir ekki hjá að skrifa og skrafa eitthvað um það sem snertir málið. Flest er léttvægt sem þá fer í loftið eins og að velta fyrir sér hvaða tímamörk hafi falist í orðum forseta Íslands þegar hann sagðist sunnudaginn 7. apríl vænta þess að það myndi skýrast „senn“ hver tæki við af Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra.

Engin niðurstaða fékkst í skilgreiningu á tímalengdinni að baki orðinu „senn“. Verði tilkynnt um nýtt ráðuneyti, nýs forsætisráðherra, á innan við tveimur sólarhringum eftir að fráfarandi forsætisráðherra baðst lausnar fellur það örugglega innan þess sem kalla má „senn“.