Ný bylgja á landamærin
Hvernig væri, í ljósi reynslunnar, að staldra við og velta fyrir sér öðrum þáttum þessa máls en að brjóta niður afgreiðslukerfið, þann öryggisventil sem löggjafinn hefur sett um þetta efni?
Á sínum tíma birtust í Albaníu auglýsingar frá einhverjum sem buðu aðstoð við að auðvelda mönnum að komast til Íslands þar sem með leik mætti komast á opinbert framfæri. Þá fjölgaði Albönum í landinu auk þess sem alþingismenn sýndu velvilja sinn í garð albanskrar fjölskyldu á einstakan hátt.
Nokkru síðar streymdi fólk frá Venezúela hingað. Þar stóðu einhverjir að baki sem kynntu Ísland sem betri endapunkt en annan í Evrópu. Leið frá Venezúla lá um eitthvert evrópskt Schengenríki sem hefði fyrst átt að taka komu þeirra til athugunar. Hér naut þetta aðkomufólk sérréttinda þar til reglum var breytt.
Á sínum tíma rauf dómsmálaráðherra aðild okkar að Dyflinnarreglugerðinni vegna þess að það væri ómannúðlegt að brottvísa fólki til Grikklands eða Ítalíu. Þá var talað um að við ættum að hafa faðminn opinn fyrir þá sem færu vegalausir úr einu landi í annað.
Fyrir 10 árum, þegar Angela Merkel opnaði Þýskaland fyrir straumi farandsfólks frá arabalöndum sátu fulltrúar allra þingflokka við að semja útlendingalög sem tóku mið af umburðarlyndinu í Þýskalandi og voru þau samþykkt árið 2016.
Þeir sem hafa hag af því að kynna farandfólki án vegabréfa hentugan áfangastað litu þessi lög ánægjuaugum og tóku að nýta sér þau til flytja hingað fólk.
Væri gerð tilraun til að breyta lögunum og draga úr stjórnlausum greiðslum úr ríkissjóði til fólks sem nýtti sér þau, beitti hópur þingmanna sér harkalega gegn slíkum breytingum og naut málstaður þeirra stuðnings meðal fjölmiðlamanna.
Hér þarf ekki að tíunda sérstaka velvild í garð Palestínuaraba.
Seint og um síðir tókst fyrir tilstilli þingmanna Sjálfstæðisflokksins að snúa af þessari óheillabraut. Betur má þó ef duga skal.
Nú birtast fréttir um nýja bylgju við landamærin. Morgunblaðið segir frá því í dag (8. sept.) að gífurlega fjölgun umsókna nemenda utan Evrópu um nám í íslenskum háskólum megi sennilega að hluta til skýra með myndskeiðum sem hafi verið dreift á samfélagsmiðlum á borð við TikTok. Þar sé sagt frá því að háskólanám á Íslandi standi alþjóðlegum nemendum til boða að kostnaðarlausu og jafnvel að nemendur geti flutt hingað með fjölskyldum sínum.
Vegna þessa hefur umsóknum um dvalarleyfi námsmanna til úlendingastofnunar fjölgað um 40% á milli ára. Punkturinn í fréttinni verður að umsækjendur kvarti undan að fá ekki hraðari afgreiðslu á umsóknum! Gamalkunnugt stef til að opna glufu á landamærunum.
Hvernig væri, í ljósi reynslunnar, að staldra við og velta fyrir sér öðrum þáttum þessa máls en að brjóta niður afgreiðslukerfið, þann öryggisventil sem löggjafinn hefur sett um þetta efni? Hver hefur t.d. hag af auglýsingunum?
Lítils er að vænta af þingmeirihlutanum að baki Kristrúnar Frostadóttur. Á síðasta þingi flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og endurflytur vafalaust núna frumvarp sem grefur undan íslenska kerfinu um áritanir á vegabréf inn á Schengensvæðið. Markmið hennar er að stórfjölga þeim sem áritunum og fela embættismönnum utanríkisráðuneytisins hlutverk útlendingastofnunar af því að þeir tryggi hraðari afgreiðslu. Er ekki að efa að lagasetningunni verði fagnað á TikTok. Hverjum til góðs?