29.8.2024 10:19

Nútímavæðum gæslustörf

Ekkert sem gert er til að auka öryggi Íslands út á við skilar árangri nema í samvinnu við bandamenn, hvort sem um er að ræða hervarnir eða gæslu landamæra af hálfu landhelgis- eða löggæslu.

Halldór B. Nellett starfaði hjá Landhelgisgæslu Íslands (LHG) í 42 ár og var um langt árabil farsæll skipherra á varðskipum hennar. Við hann er rætt í Morgunblaðinu í dag (29. ágúst) í tilefni af fréttum um að TF-SIF, eftirlitsflugvél gæslunnar, sé í lamasessi vegna viðgerðar, en tæring fannst í hreyflum hennar. Verður vélin ekki til taks að nýju fyrr en eftir nokkra mánuði.

Halldór segir réttilega að þessi fullkomna eftirlitsflugvél hafi ekki verið keypt til að sinna gæslu á Miðjarðarhafi þótt hún hafi verið send þangað reglulega eftir að hún kom til landsins eftir hrunið 2008. Má fagna því að fyrir þær hamfarir var bæði ráðist í kaup á fullbúnu, sérsmíðuðu varðskipi, Þór, og TF-SIF. Hitt er síðan áhyggjuefni sem birtist í litlum skilningi á nauðsyn þess að tryggja fé til rekstrar á þessum tækjum. Í samtalinu í dag spyr Halldór:

„Er það ekki líka skylda okkar að sýna ábyrgð, vakta okkar dýrmætu lögsögu og allt sem þar fer fram, skipaumferð, sæstrengi o.fl. og hafa tiltæk þau tæki sem til þarf ef slys verða?“

Svarið er augljóst. Þarna gagnrýnir Halldór hve miklu fé var varið til leiðtogafundar Evrópuráðsins í fyrra. Innan lands stendur þó helst að löggæsluaðilar, lögregla og landhelgisgæsla, fengu þjálfun og þekkingu til að takast á við stórverkefni á sviði alþjóðlegrar öryggisgæslu. Tækja- og vopnabúnaður var aukinn og endurnýjaður fyrir utan að stofnað var til nánara samstarfs við erlenda löggæsluaðila en nokkru sinni fyrr.

Screenshot-2024-08-29-at-10.16.50

Staðreynd er að ekkert sem gert er til að auka öryggi Íslands út á við skilar árangri nema í samvinnu við bandamenn, hvort sem um er að ræða hervarnir eða gæslu landamæra af hálfu landhelgis- eða löggæslu.

Þessa dagana er hér heræfingin Norður-Víkingur þar sem að sögn utanríkisráðuneytisins eru til dæmis „æfðar uppgöngur í skip, viðbrögð við árás á mikilvæga innviði, kafbátaeftirlit, flutningur á búnaði og liðsafla til Íslands, gistiríkjastuðningur og samskipti við stjórnstöðvar hér á landi, sprengjueyðing, viðgerðir á flugbrautum eftir sprengjuárás, eldsneytisáfyllingar, leit og björgun og sjúkraflutningar“. Hingað kemur meðal annars pólsk hersveit með færanleg – óvirk – eldflaugavarnarkerfi til að verjast óvinveittum skipum.

Jafnframt segir að ætlunin sé að „æfa sérstaklega borgaralega og hernaðarlega samvinnu“. Er horft til þess „að herliðið aðstoði almannavarnir við rýmingu á svæði og flutning slasaðra í kjölfar náttúruhamfara“.

Alls taka um 1.200 manns þátt í æfingunni, þar af um 200 Íslendingar frá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, landhelgisgæslunni, ríkislögreglustjóra, almannavörnum og öðrum stofnunum.

Flestir íslensku þátttakendurnir í æfingunni koma frá stofnunum sem heyra undir dómsmálaráðuneytið. Til að nútímavæða gæslu öryggis Íslands á sjó og landi ætti að flytja aðgerðasviðið alfarið frá utanríkisráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins og haga áætlanagerð og skipulagi í nánara samstarfi við landamæraverði annarra landa með nútímavæðingu með drónum og gervitunglaeftirliti auk samstarfs á sjó við gæslu sæstrengja.