25.10.2023 9:24

Nú eru það nagladekkin

 Í Noregi vinna samtökin Trygg Trafikk að því að bæta umferðaröryggi. Þau birtu nýlega áskorun til bifreiðaeigenda um að sem flestir létu setja nagladekk undir bíla sína.

Nú er rétti tíminn til að huga að vetrarbúnaði bíla og þar með dekkjum. Andróðurinn gegn nagladekkjum af hálfu þeirra sem fara með stjórn Reykjavíkurborgar er í samræmi við almenna ólund þeirra í garð bílaumferðar sem birtist í alls kyns töfum og hindrunum. Snjallvæðing við umferðarstjórn er meira að segja bönnuð.

Meðal furðulegra frétta ríkisútvarpsins er nýlegt samtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Mátti helst halda að fréttastofan teldi þetta vera á döfinni því að daginn eftir var Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála spurður álits á ummælum borgarstjóra. Ráðherrann benti á að mörg brýnni verkefni biðu úrlausnar í samgöngumálum borgarinnar.

Í rúma tvo áratugi hefur Dagur B. Eggertsson rætt um lokun Reykjavíkurflugvallar og lagningu Sundabrautar fyrir utan að Miklubrautin sé sett í stokk. Þetta reynist innantómt tal án þess að nokkuð haldbært gerist. Stefnan birtist í fyrrgreindri ólund í garð bíla og skipulagsbrölti í von um að með því takist að eyðileggja flugöryggi í Vatnsmýrinni.

Til að beina athygli frá þessum vandræðamálum sínum kýs borgarstjórinn nú að bæta hraðlest frá Keflavík til Reykjavíkur í safn óleystra samgönguverkefna og fréttastofa ríkisútvarpsins leggur honum að sjálfsögðu lið í veruleikaflóttanum.

Þegar rætt verður um skaðsemi nagladekkja á næstunni í ríkisútvarpinu og annars staðar ætti að líta til landa sem gjarnan eru höfð til samanburðar.

Pipedekk

Norðmenn eru í sömu sporum og við núna. Þar er almennt heimilt að aka á negldum dekkjum frá og með 1. nóvember til fyrsta sunnudags eftir annan í páskum. Tíminn er lengri í Norður-Noregi frá 16. október til 30. apríl.

Í Noregi vinna samtökin Trygg Trafikk að því að bæta umferðaröryggi. Í tilefni af dekkjaskiptum birtu þau nýlega áskorun til bifreiðaeigenda um að sem flestir létu setja nagladekk undir bíla sína.

Í norska ríkisútvarpinu, NRK, var rætt við Bård Morten fagsjef hjá Trygg Trafikk. Hann hvatti til þess að fleiri notuðu nagladekk því að þau ykju ekki aðeins öryggi negldra bíla heldur einnig annarra þar sem naglarnir rifu upp klaka á vegum og drægju þannig almennt úr hættu vegna ísingar. Mengun vegna dekkjanna væri smáræði miðað við öryggið sem þau veittu.

Í norskum fréttum segir að í Osló, Bergen og Þrándheimi sé innheimt naglagjald af bílum, 450 NKR á mánuði, 5.600 ISK eða 1.400 NKR fyrir naglatímabilið 17.500 ISK. Þá kom fram að í Kristiansand og Stavanger hefði verið ákveðið að hætta að innheimta naglagjald.

Margsannað er að skortur á rykhreinsun og þrifnaði á götum Reykjavíkur veldur mun meiri rykmengun í borginni en notkun nagladekkja. Að skella mengunarskuldinni á dekkin er í ætt við að hefja umræður um borgarlínu og hraðlestir til að beina athygli frá óleystum umferðarhnútum á götum höfuðborgarinnar.