17.3.2017 10:00

Föstudagur

Hafi einhver fundið frétt um það í Fréttablaðinu að það sé eitt eftir í höndum fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fjölmiðlaveldinu 365 mundi ég þiggja ábendingu um hvar fréttina sé að finna. Þögnin um þetta í blaðinu væri enn einn vitnisburðurinn um að það er gefið út til að þóknast lund Jóns Ásgeirs.

Þeir keppast um að hafa verið þaulsetnustu dálkahöfundar blaðsins Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Þorvaldur Gylfason prófessor. Guðmundur Andri lætur sig hafa að dálki hans sé ýtt til hliðar vilji Jón Ásgeir koma eigin grein í rými hans.

Mánudaginn 13. mars veittist Guðmundur Andri að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í dálki sínum og taldi hana ekki nógu mikinn umhverfissinna. Ráðherrann svaraði rithöfundinum í skeleggri grein fimmtudaginn 16. mars og sagði í upphafi hennar:

„Drjúgur hluti þess pappírs sem íbúar Reykjavíkur flokka í sérstakar bláar tunnur eru fríblöð á borð við Fréttablaðið og Fréttatímann og auglýsingabæklingar sem þessum blöðum fylgja. Ég þarf ekki að flokka þessi blöð frá öðru heimilissorpi. Og hvers vegna ekki?

Í stað þess að láta flytja til landsins pappír sem unninn var með mikilli fyrirhöfn, aka honum í prentsmiðju, aka prentuðu blaðinu til blaðbera sem ber það heim til mín, flokka blaðið frá öðru sorpi, vera með sérstaka aðstöðu fyrir blaðið innan dyra og sérstaka bláa tunnu undir það utan dyra sem sérstakur 10 tonna sorptrukkur tæmir og ekur til pressunar og böggunar í þungan gám sem settur er um borð í svartolíubrennandi flutningaskip sem flytur það aftur yfir hafið til orkufrekrar endurvinnslu þá les ég þessi blöð bara á netinu.

Þessa afstöðu mína kallar Guðmundur Andri Thorsson „strútskýringu“ og „afneitun“ í grein í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag. Mig sjálfa segir hann vera „einn eindregnasta strút landsins“. Fólk eins og mig telur hann „þrugla“ og vera fullt af „sjálfbirgingshætti“ og með „sérviskulegar skoðanir“ auk þess að ljá „fávísinni rödd“ og ýta undir „vanþekkingu“ með „útúrsnúningum, vífilengjum og afneitunum“.“

Við vaxandi kröfur um flokkun á sorpi verður meira íþyngjandi en áður að troðið sé inn um bréfalúgur fólks dagblöðum sem það vill í raun ekki. Gunnar Smári Egilsson sem seldi Jóni Ásgeiri Fréttablaðið á laun fyrir 15 árum vinnur nú að fjársöfnun fyrir Fréttatímann sinn og hefur birt nöfn á fólki sem hann kallar „samvisku“ fyrirtækis síns. Skyldi þetta fólk ætla að leiðbeina Gunnari Smára í fjármálum?  Eða í umhverfismálum?