12.3.2017 11:00

Sunnudagur

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra og Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, tókust á um mislæg gatnamót á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar í Víglínunni á Stöð 2 laugardaginn 11. mars.

 

Í frétt á visir.is um samtal þeirra segir:

 

„Hjálmar Sveinsson rifjaði hins vegar upp að slík gatnamót hafi verið á dagskrá en tekin út af dagskrá vegna vilja íbúa hverfisins í grennd við gatnamótin.

 

„Það er kannski lærdómurinn sem við drögum af því að það sem einu sinni þótti sjálfsagt, að setja mislæg gatnamót niður í borginin, er það ekki lengur. Fólk í næsta nágrenni óttast mjög mikla og mjög hraða bílaumferð. Þetta er reynsla sem er úr öllum borgum allstaðar,“ sagði Hjálmar.“

 

Jón Gunnarsson taldi nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að greiða fyrir umferð á gatnamótunum.

 

„Það þekkja það allir sem fara um þessi gatnamót hversu mikill farartálmi þau eru, hversu mikil umferð þarna stoppast. Við erum ekkert að fara að vinna á því með bættum almenningsamgöngum eða fólk ætli að fara að labba og hjóla,“ sagði Jón. Það hefði verið „einbeittur vilji“ borgaryfirvalda að koma í veg fyrir mislæg gatnamót á þessum stað.

 

Í fréttinni kemur ekki fram hvort Hjálmar hafi reifað þá skoðun sína að ekki beri að reisa umferðarmannvirki af því að þau fyllist bara strax af bílum. Hann segir hins vegar að ekki beri að gera mislæg gatnamót af því einhverjir hafi mótmælt þeim. Þetta er í sama anda og rökin fyrir að ekki beri að leggja Sundabraut á þeim stað þar sem sérfræðingar í vegagerð telja hagkvæmast af því að einhverjir séu á móti því.

 

Þetta tal Hjálmars um að taka eigi tillit til sjónarmiða almennings er ekkert annað en skálkaskjól.

 

Hjálmar skipulagsráðsmaður hefur skoðanir almennings að engu þegar kemur að flugvellinum í Vatnsmýrinni. Um 70.000 manns hafa mótmælt áformum Hjálmars og félaga um að loka Reykjavíkurflugvelli. Þessi mótmæli eru höfð að engu og mótmælendum í raun sýnd lítilsvirðing.

 

Tvískinnungur samfylkingarmannanna Dags B. Eggertssonar, Hjálmars Sveinssonar og Skúla Helgasonar í borgarstjórn Reykjavíkur er af þeirri stærðargráðu að fjölmiðlamenn virðast ekki ná utan um hann, nema þeir vilji einfaldlega ekki skýra málið fyrir almenningi á þann veg sem ber.

Nýlega var frétt um að margir flokkar ætluðu að bjóða fram til borgarstjórnar á árinu 2018. Það var ekki spurt hvort Samfylkingin ætlaði að gera það – er hún ennþá til á höfuðborgarsvæðinu?