10.3.2017 18:00

Föstudagur

Fundir og fyrirlestrar eru svo margir að ógjörningur er að fylgjast með öllu sem þar gerist eða hverjir, tala Íslendingar eða útlendingar.

Í þessari viku hef ég hlustað á tvo fróðlega fyrirlestra.

Rose Gottemoeller, vara-framkvæmdastóri NATO, flutti þann fyrri í Norræna húsinu í hádegi miðvikudags. Sjá hér. Gottemoeller starfaði í bandarísku utanríkisþjónustunni og sinnti einkum afvopnunarmálum þar til hún hóf störf hjá NATO í forsetatíð Baracks Obama. Þegar tilkynnt var um vistaskipti hennar töldu margir að það boðað mildari afstöðu í garð Rússa en áður eftir að spennan magnaðist í þeirra garð við innlimun Krímskaga.

Gottemoeller lýsti vissulega tvíþættri stefnu NATO gagnvart Rússum: Viðleitni til að halda þeim í skefjum, deterrent, og viðleitni til að ræða við þá, dialogue. Af orðum hennar var ljóst að erfitt væri að koma á efnislegum viðræðum.

Merkilegust fyrir okkur Íslendinga var yfirlýsing Gottemoeller um að varnarmálaráðherrar NATO hefðu ákveðið að stíga markviss skref til að endurmeta varnarstefnu bandalagsins á Norður-Atlantshafi þar sem Ísland væri miðpunktur. Hún sagðist nú ekki alls fyrir löngu í fyrsta sinn eftir langt hlé hafa heyrt minnst á GIUK-hliðið að nýju, varnarlínuna sem NATO dró frá Grænlandi um Ísland til Bretlands í kalda stríðinu. Þar skipti aðstaðan á Íslandi sköpum.

Sama verður öugglega uppi á teningnum þegar hugað verður að vörnum þessa svæðis núna – ný tækni breytir ekki landafræðinni.

Urmas Paet, eistneskur þingmaður á ESB-þinginu, fyrrverandi utanríkisráðherra Eistlands í tæp tíu ár, flutti erindi í Safnahúsinu í hádegi fimmtudags 9. mars. Sjá hér. Hann talaði af mikilli reynslu og þekkingu um stöðuna í Evrópu á þeim óvissutímum sem þar ríkja nú. Hann lagði ríka áherslu á gildi samstöðu ESB-ríkjanna þegar Bretar segja skilið við ESB en hafði greinilegar áhyggjur af því sem gerðist í kosningum í Hollandi og Frakklandi á næstunni.

Paet hefur unnið að gerð skýrslu á ESB-þinginu um afstöðu ESB til norðurslóðamála. Skýrslan er væntanleg á næstunni og sagði hann að þar yrði að finna nýmæli um nauðsyn þess að huga að hernaðarlegu stöðunni á Norður-Íshafi. ESB hefði til þessa látið duga að ræða um umhverfismál, loftslagsmál, auðlindanýtingu og hafréttarmál þegar litið væri til norðurskautsins. Aðstæður hefðu hins vegar breyst undanfarin misseri, ekki síst vegna hervæðingar Rússa, og þess vegna væri óhjákvæmilegt að taka hernaðarleg málefni með í reikninginn þegar fjallað væri um norðurslóðir innan ESB.