9.3.2017 17:00

Fimmtudagur

Í Morgunblaðinu i dag er frétt um að fyrirhugað sé að byggja 332 íbúðir í Vogabyggð. Birtir blaðið mynd sem sýnir hvernig byggðin gæti verið þarna á strandlengjunni. Virðast þetta vera fjölbýlishús suð-austanvert við aðsetur Samskipa í Sundahöfn. Olíufélagið mun hafa átt þessa lóð Ólafur Ólafsson, kenndur við Samnskip, eignaðist hana á þeim skamma tíma sem hann átti eignarhlut í Olíufélaginu. Í fréttinni segir að Fasteignafélagið Festir ehf., einkafélag Ólafs, muni byggja húsin á lóðinni.

Á forsíðu blaðsins segir:

„Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum þrjá samninga sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu í Vogabyggð 1 á Gelgjutanga við Elliðaárvog. Vinna við deiliskipulag svæðisins er hafin.

Á Gelgjutanga hyggst fasteignafélagið Festir ehf. byggja allt að 332 íbúðir. Samtals er gert ráð fyrir 33.000 fermetrum ofanjarðar í fimm húsum, þar af úthlutar Reykjavíkurborg einu húsi eða um 6.000 fm undir leiguíbúðir.

Allar byggingar sem nú eru á Gelgjutanga eru í eigu Festis ehf., samtals um 7.000 fermetrar. Þær verða rifnar áður en framkvæmdir hefjast. Reiknað er með því að framkvæmdir geti hafist árið 2018.“

Á sínum tíma var rætt um þetta svæði í tengslum við lagningu Sundabrautar. Þá var rætt um þrjár tengingar brautarinnar yfir Elliðaárvog: á brú, á brúm þarna við Geljutanga eða í göngum undir voginn.

Í frétt Morgunblaðsins segir:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun í borgarráði þar sem þeir töldu mikilvægt að við skipulag Vogahverfis yrði þess gætt að halda þeim möguleika opnum að Sundabraut liggi um svæðið samkvæmt svokallaðri innri leið, t.d. í göngum.

Hrólfur Jónsson [skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg] segir aðspurður að frá því hafi verið gengið bæði í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins hvar Sundabraut skuli liggja. Sú lega sé rétt vestan við gamla Kleppsspítala. Jafnframt sé verið að ganga frá lokasamþykki deiliskipulags fyrir Vogabyggð 2 og hafi skipulag þess svæðis jafnmikil áhrif á mögulega legu Sundabrautar um þetta svæði eins og Vogabyggð 1. „Sundabraut hefur aldrei verið þarna á skipulagi. Vegagerðin hefur hins vegar sett fram hugmyndir um legu Sundabrautar þarna sem svokallaða innri leið. Þegar Sundabraut var mest í umræðunni fyrir 12 árum var mikil andstaða íbúa á svæðinu við þessa hugmynd Vegagerðarinnar,“ segir Hrólfur.“

Allt er þetta í véfréttarstíl. Eru vinstri andstæðingar vega sem fyllast af bílum að loka enn einni leiðinni?