7.3.2017 17:45

Þriðjudagur

Í ljósi þess hver er stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum og hvernig málum er háttað innan Evrópusambandsins er það aðeins til marks um að skynsemin ræður ekki enn för ESB-aðildarsinna á Íslandi að Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar alþingis, skuli telja rétta tímann núna til að viðra þá skoðun við bandaríska dagblaðið The Washington Times (23. febrúar) að aðildin að EFTA og EES dugi ekki til að gæta íslenskra hagsmuna, rödd Íslendinga heyrist ekki nóg í Brussel og krónan sé of sveiflukennd.

 

Eftir samtal við Jónu Sólveigu segir blaðamaðurinn Dominic Hinde „some powerful voices in the tiny country want in“ og stillir sjónarmiðinu upp sem andstöðu við þá sem eru andvígir ESB og sigurstranglegir í kosningum í Frakklandi og Hollandi auk þess sem jafnvel ýmsir æðstu embættismenn í stjórn Trumps segist hafa „little use for the 28-nation bloc“.

Eins og eðlilegt er gera stjórnarandstæðingar á alþingi sér mat úr þessari frétt bandaríska blaðsins og ummælum Jónu Sólveigar þar. Þótt þingmaðurinn boði ekki stefnu ríkisstjórnarinnar í orðum sínum vegur þungt í augum þeirra sem ekki þekkja til mála þegar formaður utanríkismálanefndar þings einhvers lands tekur til máls og lýsir skoðun sinni á stöðu þjóðar sinnar í alþjóðasamstarfi.

Jóna Sólveig veit væntanlega að tal um aðild að ESB er ekki til heimabrúks lengur. Haldi formaður utanríkismálanefndar að hún slái sér upp á erlendum vettvangi með haldlausum yfirlýsingum sem túlkaðar eru eins og ESB-málið sé hér á dagskrá metur hún stöðuna síður en svo rétt.

Jóna Sólveig ætti að lesa það sem Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, segir í Morgunblaðinu í dag, meðal annars þetta:

 

„Vitanlega er Evrópusambandið ekki lokaður pakki. Þið vitið hvað þið væruð að fara út í. Og ef þið eruð ekki reiðubúin til þess, haldið ykkur þá fyrir utan sambandið. Það er það besta sem þið getið gert. [...] Þess utan á sambandið við svo mikla erfiðleika að stríða eins og staðan er í dag að við þurfum ekki fleiri vandræðagemsa innan veggja þess.“

Rauði þráðurinn í ESB-boðskap Viðreisnar hefur einmitt verið að ljúka verði ESB-viðræðum til að fá að „kíkja í pakkann“. Vilji flokkurinn að hafnar séu umræður um þá lyga- og blekkingarstefnu á nýjan leik eru ummæli á borð við þau sem formaður utanríkismálanefndar lét falla í The Washington Times kjörið tilefni til þess.