6.3.2017 12:30

Mánudagur

Ófriðurinn innan VG tekur á sig ýmsar myndir eins og lesa mátti í Fréttablaðinu í dag, mánudag 6. mars.

Þar segir:

 

„Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, hótaði í liðinni viku að kæra ritara flokksins, Unu Hildardóttur, fyrir hatursorðræðu. Þann 13. janúar síðastliðinn sagðist Una „hata miðaldra karlmenn“ á Twitter. Björn Valur er vissulega miðaldra karlmaður en það er glænýr snúningur á innanflokksátökum þegar stjórnarmenn hóta að kæra hver annan fyrir ummæli, þeim ótengd, á samfélagsmiðlum. Hatursorðræða gegn miðaldra karlmönnum yrði ákaflega spennandi prófmál. Það eru hæg heimatökin hjá Birni Val en hatursglæpalöggan, Eyrún Eyþórsdóttir, var varaþingmaður flokksins á síðasta kjörtímabili.

Björn Valur hefur raunar átt í vandræðum innan VG lengi. Flokksmenn segja hann hafa komist nálægt því að eyðileggja síðustu kosningabaráttu VG í NA-kjördæmi með gremju og niðurrifi. Þá fóru þingmenn ekki í grafgötur með að Björn hefði staðið í vegi fyrir ríkisstjórnarsamstarfi fimm flokka frá vinstri til miðju í haust. Flokksmenn VG reyndu þá að gera sem minnst úr vægi varaformannsins. Svo virðist sem Björn hafi málað sig út í horn hjá flokksfélögum sínum. Þaðan reynir hann að taka hornspyrnu en liðsmennirnir eru í sókn hinumegin á vellinum.“

 

 

Höfundur þessarar klausu sem birtist í því sem hér hefur verið kallað húskarlahorn Fréttablaðsins er Snærós Sindradóttir blaðamaður sem var á sínum tíma virk innan VG og skrifaði í Smuguna, vefblað í þágu VG sem lagði upp laupana.

 

Augljóst er að höfundi er illa við Björn Val Gíslason, varaformann VG, og vill veg hans sem minnstan. Viðhorf Snærósar endurspeglar þá skoðun sem ríkir í VG 101-Reykjavík undir forystu Svandísar Svavarsdóttur og innan baklandsins svonefnda sem mátti ekki heyra minnst á samstjórn VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þegar unnið var að myndun ríkisstjórnar fyrir og eftir áramót.

 

Vegna harðnandi átaka af þessum toga innan VG hafði jafnvel verið búist við einhvers konar uppgjöri á flokksráðsfundi VG sem haldinn var laugardaginn 4. mars. Fréttir hafa ekki borist af neinu slíku, þess í stað kjósa andstæðingar Björns Vals varaformanns að vega að honum á þann veg sem gert var í Fréttablaðinu.

Undir niðri býr samblástur gegn Katrínu Jakobsdóttur flokksformanni. Að sjálfsögðu er ásökunin um að Björn Valur hafi hindrað myndun fimmflokkastjórnar ekki annað en yfirlýsing um að Katrín hafi ekki staðið sig sem skyldi.