3.3.2017 19:30

Föstudagur

Rut, eiginkona mín, fékk heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna í gærkvöldi þegar efnt var til hátíðar í Silfurbergi Hörpu. Rut þakkaði verðlaunin með stuttu ávarpi og má sjá það hér

 

Henni var innilega fagnað á hátíðinni og risu gestir tvisvar á fætur og hylltu hana með dynjandi lófataki.

Ég setti mynd sem ég tók við heimkomu okkar og setti á Facebook. Færsla mín þar hefur aldrei fengið jafngóðar undirtektir eins og sjá má hér.

Í dag ræddi Guðni Tómasson við Rut í þættinum Víðsjá á rás 1 og má hlusta á viðtalið í Sarpi RÚV til 1. júní nk.

Á forsíðu Morgunblaðsins birtist í dag fjögurra dálka mynd af Rut á sviðinu í Silfurbergi og stutt viðtal þar sem hún segir:

 „Svona heiður kemur manni alltaf skemmtilega á óvart. Ég finn að starf mitt öll þessi ár er metið að verðleikum og fyrir það er ég bæði þakklát og glöð. Það urðu kaflaskipti hjá mér þegar ég hætti með Kammersveitina, en ég hef meira en nóg að gera. Þessi verðlaun eru mér því líka ákveðin hvatning fyrir áframhaldandi starf.

Í tónlistinni er ég að skipuleggja menningarstarf okkar í Fljótshlíðinni og stefni að því að spila fyrir austan í sumar. [Hér vísar Rut til tónleika og annars sem við efnum til í Hlöðunni á Kvoslæk.]

Ég er þakklát fyrir hversu fjölbreyttur starfsferill minn hefur verið og hvað ég hef fengið tækifæri til að gera margt ólíkt sem allt er mér jafn kært þegar upp er staðið. Þegar ég lít til baka finnst mér allt hafa verið skemmtilegt og gefandi. Allt starfið með Kammersveitinni hlýtur þó að standa hæst. Þess utan get ég nefnt kennsluna þar sem mér gafst tækifæri til að starfa með ungu fólki áratugum saman, starfið með ýmsum kórum sem var stórkostlegt og er t.d. ógleymanlegt að hafa komið fram með Pólýfónkórnum í Markúsarkirkjunni í Feneyjum. Einnig verð ég að nefna ferðalögin um landið í öllum veðrum til að leika í litlum kirkjum, að spila einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands margoft ásamt því að vera óbreyttur meðlimur þar og starfið í Skálholti þar sem ég lék bæði á barokk- og klassíska fiðlu. Þetta hefur allt verið jafn gefandi.“