26.2.2017 22:00

Sunnudagur

Í dag sótti ég tvenna afmælistónleika í Norðurljósasal Hörpu.

Píanóleikarinn Richard Simm efndi til einleikstónleika í tilefni af 70 ára afmæli sínu frá kl. 14.00 til 16.00. Þetta var glæsileg afmælishátíð. Í kynningu á afmælisbarninu sagði meðal annars í dagskrá tónleikanna:

 

„Richard hefur haldið tónleika í Wigmore Hall og Purcell Room í London, auk þess að hafa komið fram á fjölda tónleika í Þýzkalandi, í Bandaríkjunum og á Íslandi, þar sem einleik hans hefur verið lýst sem einu af þeim best geymdu leyndarmálum landsins.“

Richard Simm hefur verið búsettur hér síðan 1989. Í samtali við Morgunblaðið í tilefni af tónleikunum núna sagði hann:

„Í tilefni sjötugsafmælis míns langaði mig að halda einleikstónleika og leika nokkur uppáhaldsverka minna. Sum þeirra hef ég leikið næstum alla ævi meðan einstaka verk er ég nýbyrjaður að fást við. Þetta eru allt mjög skemmtileg tónverk og saman mynda þau fjölbreytta efnisskrá. Ég hlakka til að spila í Norðurljósum, enda er hljómburðurinn í öllum sölum Hörpu afskaplega góður.“

Richard Simm var mjög vel fagnað í lok tónleika sinna. Hann sannaði að þeim sem eru 70 ára vex ekki í augum að vinna stórvirki.

Hitt afmælið sen var haldið hátíðlegt Norðurljósasal Hörpu í dag var 60 ára afmæli Kammermúsikklúbsisins. Í tilefni af afmælinu efndi Kammermúsikklúbburinn til tvennra tónleika þar sem víóluleikarinn Ásdís Valdimarsdóttir og þýski Auryn-kvartettinn fluttu alla strengjakvintetta Mozarts. Þetta eru sex verk og voru þrjú þeirra flutt í dag við mikla hrifningu áheyrenda.

Sofnendur Kammermúsíkklúbbsins voru Haukur Gröndal, Ingólfur Ásmundsson, Magnús Magnússon, Ragnar Jónsson og Guðmundur W. Vilhjálmsson, auk tónlistarmannanna Árna Kristjánssonar og Björns Ólafssonar sem jafnframt voru tónlistarráðunautar. Guðmundur W. Vilhjálmsson hefur verið í forystusveit klúbbsins til þessa dags og var hann hylltur með lófataki á tónleikunum í dag.

Frá upphafi Kammermúsíkklúbburinn hefur unnið markvisst að kynningu strengjakvartetta merkustu tónskálda sögunnar. Þetta var gert á glæsilegan hátt að tvennum tónleikum í dag og í gær með flutningi á verkum Mozarts.

Seint verður metið til fulls hvert er gildi Kammermúsikklúbsins fyrir íslenskt menningar- og tónlistarlíf. Aðstandendur hans geta litið með stolti yfir 60 ára sögu hans.

Fyrir okkur sem sóttum þessa tónleika í Norðurljósum í dag var gott að hafa hlotið þjálfun við að sitja lengi á tónleikum með því að horfa á Wagner-óperur.