25.2.2017 15:00

Laugardagur

Ofsagt er að það sé eitthvert sérstakt baráttumál Sjálfstæðismanna að áfengi sé selt í matvöruverslunum. Þessu er greinilega stundum kastað fram til að sverta Sjálfstæðismenn og flokk þeirra. Allir sem fylgjast með þjóðmálum vita að meirihluti fólks lætur sér fátt um þetta mál finnast eða er andvígur breytingum í þessa veru, sér enga nauðsyn á þeim. Einmitt þess vegna er einnig auðvelt að gera alþingi og störf þess tortryggileg í hvert sinn sem frumvarp um breytta söluhætti áfengis kemur á dagskrá 

 

Þetta gerist einmitt nú og í dag, laugardag 25. febrúar, birtist viðtal við Helga Vilhjálmsson, Helga í Góu, um hjartans mál hans, að lífeyrissjóðir fjárfesti í húsnæði sem hentar öldruðum. Í viðtalinu stendur:

 

„Við ellilífeyrisþegar eigum eitt sterkt vopn, þótt við notuðum það ekki í síðustu kosningum. Þetta vopn er kosningarétturinn. Við getum merkt við þann sem ætlar að gera eitthvað,“ segir Helgi. Hann gagnrýnir ákafa ungra Sjálfstæðismanna að koma áfengi í matvöruverslanir á meðan þeir séu ekki ákafir í að gömlu fólki líði vel í ellinni.“

 

Helgi hefur helgað sig þessu baráttumáli sínu árum saman án þess að hafa árangur sem erfiði. Hann er því í svipuðum sporum og þeir sem lengst hafa barist fyrir að áfengi verði selt utan vínbúða ríkisins.

 

Áfengisfrumvarpið verður að viðmiði sama hvaða mál menn ræða og Helgi í Góu hnýtir unga Sjálfstæðismenn eina við það þótt þingmenn úr Viðreisn, Pírötum og Bjartri framtíð séu meðal flutningsmanna. Enn má spyrja: Hvers vegna eru aðeins Sjálfstæðismenn nefndir til sögunnar? Af því að aðrir eru ekki marktækir?

 

Þessi fjöldi flutningsmanna á þingi sýnir að hér er ekki um flokksmál að ræða enda greiða þingmenn atkvæði um það án tillits til flokksbanda. Miklu nær er að þetta mál marki skil milli kynslóða. Með því að nota það sem tæki tryggja ungir þingmenn að fjölmiðlamenn og aðrir taka eftir þeim á þingi og hefji rökræður við þá. Þær verða hins vegar stundum skrýtnar því að hluti af málinu er að blásið er á rökstudd varnaðarorð eða niðurstöður vísindarannsókna, þarna er eitthvað á ferðinni sem er hafið yfir allt slíkt tal.

 

Það ætti að vera sérstakt stjórnmálafræðilegt rannsóknarefni að greina umræðurnar um lokun vínbúða ríkisins. Greiningin mundi örugglega gefa aðra mynd af málinu en þá einföldun sem oftast er kynnt í umræðum.