19.2.2017 12:30

Sunnudagur 19. 02. 17

Þór Saari sat á þingi með Birgittu Jónsdóttur og Margréti Tryggvadóttur og stóð varla upp í þingsalnum án þess að hallmæla alþingi og starfsháttum þar. Síðar skrifaði hann marklitla bók um reynslu sína. Var þetta í raun allt mesta sorgarsaga.

Nú hefur annar samflokksmaður Birgittu Jónsdóttur, Smári McCarthy, sem kjörinn var á þing fyrir Pírata 29. október 2016, tekið til við að hallmæla nýjum vinnustað sínum, alþingi, á svipaðan hátt og Þór Saari gerði. Smári sagði meðal annars í grein í blaðinu Suðra fimmtudaginn 16. febrúar að á þeim vikum sem hann hefði á þingi hefði hann lært:

„Alþingi er svo til getulaust. [...] Ég lenti í því á dögunum að þurfa að greiða atkvæði um mál sem ég hafði heyrt um en ekki náð að lesa, og var það ekki fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna sem ég fékk að vita að stóra atriðið sem stóð útaf í því hafði ekki verið lagfært. [...]

Fáir fatta að Alþingi ræður afar litlu. [...] Almenna reglan undanfarna áratugi hefur verið að taka öll völd af Alþingi, um leið og þau uppgötvast. Fyrir vikið er t.d. gagnslaust, eftir gildistöku nýrra laga um opinber fjármál, að tala við þingmenn um nauðsyn þess að fá nokkrar milljónir til að gera við götin í þakinu hjá Garðyrkjuskólanum. Fjárlaganefnd ræður ekki nákvæmum úthlutunum lengur, bara stórum sjóðum fyrir málefni. Ráðherrarnir ráða hvernig peningum er ráðstafað innan málaflokks.“

Þessi grein segir minna um alþingi og starfshætti þar en ranghugmyndir Smára um eðli þingstarfa þótt hann hafi boðið sig fram til þeirra. Sé litið til nágrannaþinga er áhrifamáttur alþingismanna síst minni en starfssystkina þar. Þingmenn „lenda ekki í“ að greiða atkvæði um mál sem þeir hafa ekki kynnt sér, geri þeir það hafa þeir einfaldlega ekki gefið sér tíma til vinna vinnuna sína.

Erfitt er að átta sig á hve langt þarf að leita til að dugað hefði að ræða við þingmenn um að fá nokkrar milljónir úr ríkissjóði, væntanlega strax ef marka má orð hans, til að gera við þakskemmdir á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði, kjördæmi Smára. Hann hefur þarna hins vegar eignast baráttumál við afgreiðslu fjáraukalaga eða fjárlaga fyrir árið 2018.