18.2.2017 17:15

Laugardagur 18. 02. 17

Miðvikudaginn 15. febrúar ræddi ég við Gísla Ferdinandsson skósmið í þætti mínum á ÍNN. Gísli verður 90 ára í október og ber aldur sinn einstaklega vel. Hann rakti fyrir mér veikindasögu sína frá því að hann datt í hálku við Laugardalslaugina í janúar 2006. Sjálfur kallar hann þetta kraftaverkasögu – en sjón er sögu ríkari.

Í hádeginu fimmtudaginn 16. febrúar ávarpaði ég fund heiðursmanna SÁÁ í húsi samtakanna, Von, við Efstaleiti. Fundarsalinn þekki ég vel því að í 10 ár hef ég komið þangað þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina um klukkan 08.00 að morgni til að stunda qi gong, kínversku líkamorkuæfingarnar. Ræddi ég þær og hugleiðslu á fundinum og svaraði síðan fyrirspurnum um það sem fundarmenn vildu heyra.

Var ég meðal annars spurður um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og frumvarpið um afnám á ríkiseinokun á smásölu áfengis. Um það mál sagði ég að það stæði ekki framförum í samfélaginu fyrir þrifum að áfengi væri selt í sérstökum verslunum ríkisins, tillaga ym breytingar á því væri hins vegar vís leið fyrir þingmenn til að komast í fjölmiðla.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, flutti ávarp á fundinum og kynnti meðal annars framkvæmdir við byggingu nýs hús yfir eftirmeðferðarmiðstöð SÁÁ í Vík á Kjalarnesi. Ætlunin er að starfsemi þar hefjist í haust. Er þetta mesta einstaka fjárfestingin í heilbrigðiskerfinu um þessar mundir. SÁÁ fagnar 40 ára afmæli 1. október 2017. Stór liður í þeirri hátið er að þetta mikla, nýja hús verður tekið í notkun.

Ýmsir kippa sér upp við að ætlunin sé að nýta fáein sjúkrarúm í tengslum við Klínikina í Ármúla og láta eins og þar sé um að ræða hættulegt stílbrot á ríkiseinokun á sjúkrahúsrekstri. Í uppnáminu vegna þessa er litið framhjá sjúkrahúsrekstri SÁÁ að Vogi og eftirmeðferðinni sem hefur verið í Vík og Staðarfelli í Dölum.

Frá og með næsta hausti verður öll eftirmeðferð í Vík. Framkvæmdir þar kosta alls um 1.200 milljónir króna. Sjúkrareksturinn SÁÁ var rekinn með 265 milljón króna halla árið 2016. Það er vegna þess að ríkið kaupir 1.530 innlagnir á Vog en þær voru alls 2.200. SÁÁ verður að brúa bilið með fjáröflun. Í Vík verða pláss fyrir 60 sjúklinga á hverjum tíma.

Í von við Efstaleiti er göngudeild og skrifstofur SÁÁ. Frá árinu 1996 hefur SÁÁ látið um þrjú þúsund milljónir, á verðlagi þessa árs, renna í sjúkrareksturnn sjálfan. Bilið hefur verið brúað með álfasölu, félagsgjöldum og öðrum fjáröflunarverkefnum á vegum samtakanna.