Föstudagur 17. 02. 17
Í dag var fjölmenn útför Ólafar Nordal, alþingismanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, gerð frá Dómkirkjunni. Vegna fjölmennis var unnt að fylgjast með því sem fram fór í kirkjunni í Iðnó. Fyrir utan kirkju og suður Templarasund að Vonarstræti stóðu ungir sjálfstæðismenn heiðursvörð með fána þegar athöfninni lauk.
Séra Sveinn Valgeirsson jarðsöng, Eyþór Gunnarsson lék á píanó, Ari Bragi Kárason á trompett, Kári Þormar á orgel, Hallfríður Ólafsdóttir á flautu, Voces masculorum sungu, Sigríður Thorlacíus söng og Jóhann Sigurðsson las ljóðið Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson. Útfararstofa Íslands hafði umsjón með útförinni, boðið var til erfis í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.
Ólöf Nordal var farsæll stjórnmálamaður sem ávann sér virðingu út fyrir bönd Sjálfstæðisflokksins. Henni voru í raun allir vegir færir í stjórnmálum. Þjóðin naut krafta hennar alltof stutt því að hún var aðeins 50 ára þegar krabbamein dró hana til dauða.
Ég tók tvisvar sinnum viðtal við Ólöfu í þætti mínum á ÍNN, annað má nálgast á netinu og sjá það hér.