14.2.2017 15:45

Þriðjudagur 14. 02. 17

Kellyanne Conway, ráðgjafi Donalds Trumps, er send í samtalsþætti þegar harðnar á dalnum hjá Trump. Nú er hún önnum kafin við að skýra afsögn Michaels Flynns þjóðaröryggisstjóra aðeins 24 dögum eftir að hann tók formlega við embætti. Skýringin er einföld: Flynn laug að Mike Pence varaforseta um efni samtala sinna við rússneska sendiherrann í Washington.

Fréttamenn kvarta undan Kellyanne Conway. Hún skjóti sér undan að svara spurningum þeirra með því að tala um eitthvað annað en um er spurt. Hún grípur ef til vill eitt orð í spurningunni á lofti og spinnur út frá því. Hafa sumir notað orðið postmodernismi til að lýsa aðferð hennar, þetta orð hefur í stjórnmálafræðinni verið íslenskað með orðinu eftirhyggja, hvað sem það nú þýðir.

Hér verður ekki reynt að skilgreina eftirhyggju. Á þetta orð er hins vegar minnst vegna þess að nú tala menn um post-truth, post-west, post-order þegar þeir lýsa þróun alþjóðamála. Hvernig á að íslenska þessi orð? Verðum við ekki að gera það á skiljanlegan hátt til að umræður um alþjóðamál á íslensku haldi í við það sem hæst ber annars staðar?

Ritstjórar orðabókanna sem kenndar eru við Oxford völdu post-truth sem orð ársins 2016. Orðið snýst í raun um lygar í opinberum umræðum, til dæmis um fjölda fólks sem tekur þátt í mótmælum eða útifundum. Deilur um þetta tóku á sig þá mynd hér í apríl 2016 að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að hætta að svara spurningum fjölmiðla um fjölda þeirra sem koma saman í miðborg Reykjavíkur. Þeir sem skipulögðu mótmæli á Austurvelli gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sögðu rúmlega 20.000 manns hafa tekið þátt í þeim lögreglan taldi þá tæplega 10.000.

Post-west vísar til þess að vestræn ítök kunni að minnka séu lýðræðislegir, frjálslyndir stjórnarhættir á undanhaldi gagnvart lýðskrumi og óskum um „sterkan leiðtoga“. Mannréttindafrömuðir segja að of margir vestrænir stjórnmálaleiðtogar virðist hafa tapað trúnni á grunnstoðir mannréttinda og veiti þeim aðeins hálfvolgan stuðning.

Post-order vísar til þess að skipan heimsmála sé að taka á sig nýja mynd. Þetta birtist meðal annars í andstöðu við fjölþjóðlega fríverslunarsamninga eða aðild að Evrópusambandinu.

Er unnt að hanna gegnsæ íslensk orð sem lýsa þróun heimsmála á sama hátt og þessi þrjú orð post-truth, post-west og post-order?