13.2.2017 13:45

Mánudagur 13. 02. 17

Undarlegt er að það sé reiðarslag fyrir þá sem sinna jafnréttismálum á opinberum vettvangi að líklega séu kannanir sem sýna eiga launamun kynjanna reistar á svo veikum grunni að þær gefi ekki rétta mynd. Í stað þess að fagna upplýsingum sem hníga að því að þennan launamun sé aðeins að finna í brengluðum könnunum en ekki í raun er vegið að þeim sem benda á að vitlaust kunni að vera reiknað.

„Allar kannanir stéttarfélaga [um launamun kynjanna] sem ég hef séð síðustu árin eru algjörlega marklausar,“ segir Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi, í samtali við Morgunblaðið mánudaginn 13. febrúar. Hann tekur þó fram að hann haldi því alls ekki fram að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar. Í vönduðum könnunum Hagstofu Íslands og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hafi „óútskýrði launamunurinn“ verið lítill og þar séu slegnir miklir varnaglar. 

Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, segir við Morgunblaðið að skýringuna á óútskýrðum launamun í rannsóknum á launum kynjanna, megi alltaf rekja til sömu villunnar. „Það er ekki verið að margendurtaka rannsóknir, það er verið að margendurtaka sömu vitleysuna,“ segir Helgi.

Á mbl.is mánudaginn 13. febrúar voru þessar alvarlegu athugasemdir bornar undir Kristínu Ástgeirsdóttur hjá Jafnréttisstofu. Hún heldur fast í „ótal“ kannanir sem sýni kynbundinn launamun. Það er kannanir sem Helgi telur að endurtaki aðeins „sömu vitleysuna“.

Lokarökin í málsvörn Kristínar eru þau að menn í ESB hafi „komið sér saman um ákveðna aðferðafræði þar sem þeir mæla tímakaup og þetta reiknaði Hagstofan út hér á landi. Útkoman var að launamunurinn hér væri um 17% og svipaður og í Evrópulöndunum. Er þetta bara eitthvert rugl?“ spyr Kristín með þjósti og síðan: „Vita þessir spekingar þeir Einar og Tómas meira en þessir hagfræðingar og tölfræðingar sem hafa komið sér saman um þessa aðferðafræði?“

Það skyldi þó aldrei vera að þeir vissu meira en Brusselmenn? Oftar en einu sinni hafa sérfróðir menn með réttu leyft sér að draga í efa að ESB hafi rétt fyrir sér í einu og öllu.

Orðið „sérhagsmunir“ er eitrað orð í stjórnmálaumræðum. Það skyldi þó ekki eiga við um þá sem vilja ekki hlusta á málefnalegar efasemdir um gildi kannanna á launamun kynjanna? Viðurkenni jafnréttisstýra að ekki sé unnt að finna launamun með könnunum fórnar hún embætti sínu.