Föstudagur 10. 02. 17
Á visir.is birtist fimmtudaginn 9. febrúar frétt um að eigendur sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar glímdu við fjárhagserfiðleika og óvíst væri hvort stöðin lifði af árið 2017. Hringbraut var komið á fót til keppni við ÍNN þar sem ég hefur verið með þátt síðan árið 2010 þegar Ingvi Hrafn Jónsson, stofnandi og þáv. eigandi ÍNN, spurði mig hvort ég vildi liðsinna honum. Ég varð við ósk hans. Fyrst var ég með þætti á tveggja vikna fresti en nú um nokkurt skeið vikulega. Geri ég þetta ánægjunnar vegna enda gefst mér tækifæri til að hitta marga viðmælendur sem ég hefði aldrei annars kynnst.
Nýlega urðu eigendaskipti á ÍNN og eignaðist fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hrafnssonar stöðina en Björn Ingi lætur víða að sér kveða í fjölmiðlun. Engin breyting verður á mínum högum á ÍNN þótt nýir eigendur komi til sögunnar. Ég hef sama frjálsræði og áður við val á viðmælendum og spyr þá um það sem vekur áhuga minn.
Fyrir nokkrum vikum birtist frétt í The Sunday Times um að rætt hefði verið um fund Donalds Trumps og Vladimírs Pútíns á Íslandi. Sagði utanríkisráðherra að af hálfu íslenskra yfirvalda stæði ekkert í vegi fyrir því. Síðan hefur Trump gefið fyrirmæli um lokun landamæra Bandaríkjanna fyrir ríkisborgurum sjö ríkja. Af því tilefni sendi utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu 31. janúar þar sem sagði meðal annars:
„Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kom í morgun á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna á fundi með Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, sem staddur er hér á landi.“
Í fréttum í dag segir að Melina Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, sé fædd í Slóveníu. Þess vegna hafi Vladimír Pútín samþykkt á fundi með gesti sínum Borut Pahor, forseta Slóveníu, sem er í heimsókn í Moskvu að Slóvenía væri góður staður til að hitta Trump.
Segir í fréttum að Pahor hafi boðið höfuðborg lands síns, Ljubljana, sem fundarstað forsetanna.
Bandarískur millidómstóll hefur nú fjallað um mál sem áfrýjað var til hans og komist að þeirri niðurstöðu að bann Trumps standist ekki. Fréttir berast um að Trump undirbúi nýtt en annars konar bann við komu útlendinga til Bandaríkjanna.