6.2.2017 14:15

Mánudagur 06. 02. 17

Sjómannaverkfallið er í algjörum hnút og ekki öðrum að kenna en aðilum deilunnar sem hefur mistekist að finna sameiginlega lausn. Forystumenn deiluaðila eru greinilega ráðalausir þar sem sjómannaforystan nýtur ekki trausts umbjóðanda sinna eins og niðurstaða tveggja atkvæðagreiðslna um samninga sem hún gerði í fyrra sýna.

Félagsmenn Sjómannasambands Íslands felldu 10. ágúst 2016 kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem undirritaður var 24. júní 2016. Niðurstaðan var afgerandi en 66% félagsmanna höfnuðu samningum í atkvæðagreiðslu um hann. Á kjörskrá voru 1739 sjómenn og af þeim greiddu 670 eða 38,5% atkvæði. Já sögðu 223 um 33%, nei sögðu 445 um 66%.

Nýr samningur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Verkalýðsfélags Vestfjarða (VV), Sjómannafélags Íslands (SÍ) og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG) frá 11. nóvember 2016 var felldur 14. desember 2016. Samningur SFS og Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) frá 14. nóvember 2016 var felldur 16. desember 2016.

Alls sögðu 90% hjá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur nei við samningnum og 86% sögðu nei hjá Sjómannafélagi Íslands. 76% sögðu nei hjá Sjómannasambandi Íslands. 69,7 prósent þeirra sem voru á kjörskrá hjá VM sögðu nei.

Reyndir verkalýsleiðtogar og samningamenn segja að vart sé unnt að lenda í verri stöðu en þeirri sem við blasir þegar þessar tölur eru skoðaðar. Tölurnar benda raunar til þess að þeir sem stóðu að samningunum af hálfu sjómanna hafi ekki fylgt þeim fram af nauðsynlegum þunga, varla eru þeir algjörlega sambandslausir við umbjóðendur sína.

Einfalda leiðin fyrir þá sem siglt hafa í strand á þennan hátt er að kalla á aðra sér til bjargar. Hjálparbeiðnin í sjómannadeilunni er á bakvið tjöldin hafi hún verið send. Út á við hafna deiluaðilar allri aðstoð annarra. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er eðlilega ekki ljáð máls á neinni aðstoð. Reynslan kennir að allt sem boðið er af hálfu ríkisvaldsins sé einskis metið nema um sé að ræða boð á úrslitastundu og samninganefndir njóti trausts og trúverðugleika.