5.2.2017 14:15

Sunnudagur 05. 02. 17

Löngum hefur verið látið eins og í því hafi falist einber óvild í garð almennings eða óvirðing að á fyrsta þingdegi eftir jólahlé í janúar 2009 hafi frumvarp um aukið frjálsræði vegna sölu á áfengi verið á dagskrá alþingis. Að þetta hafi verið eitthvert pólitískt samsæri er að mínu mati fráleitt, ef til vill má flokka þetta undir athugunarleysi en í mínum huga er ástæðan næsta sjálfvirk uppfærsla á málum sem biðu afgreiðslu þingsins.

Listilega vel var að því staðið að blása allt öðru lífi í þessa dagskrá þingsins en höfundar hennar ætluðu. Þeir hafa kannski einhvern tíma reynt að skýra hvað fyrir þeim vakti en rödd þeirra heyrist aldrei í umræðum um málið sem lifa enn þegar rætt er um nýtt frumvarp á þingi um aukið frjálsræði við sölu áfengis og rýmkun á banni við auglýsingum.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var fyrsti flutningsmaður frumvarps um afnám ríkiseinokunar á sölu áfengis á síðasta kjörtímabili. Ég ræddi málið við hann í þætti á ÍNN og var hann sannfærður um stuðnings meirihluta þingmanna við það. Mér þótti hann of bjartsýnn, það yrði þyngra undir fæti en hann ætlaði. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingum á lögum um sölu áfengis sem kom fram fimmtudaginn 2. febrúar og hefur verið gífurlega mikið rætt síðan. Auk Teits Björns eru átta flutningsmenn úr fjórum flokkum: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki, Pawel Bartoszek úr Viðreisn, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson úr Pírötum og  Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð.

Þungamiðja frumvarpsins er að aflétta ríkiseinokuninni en sveitarstjórnir fá vald til að ákvarða hvernig sölu áfengis verði háttað í sínu umdæmi enda uppfylli verslanir lögfest skilyrði. Þá er gert ráð fyrir breyttum reglum varðandi áfengisauglýsingar.

Sæti ég á þingi yrði ég að gera upp huga minn að loknum ítarlegri umræðum en nú hafa orðið. Ég er hlynntur breytingum á auglýsingareglunum. Núgildandi reglur eru meingallaðar. Fyrirkomulagið á sölu áfengis truflar mig ekki. Mér finnst verslunarrekstur ríkisins í flugstöð Leifs Eiríkssonar stórundarlegur eins og svo margt annað sem snertir Isavia og mundi afnema þá einokun.

Í Hveragerði er vínbúðin við hliðina á Bónus. Drekka Hvergerðingar meira en aðrir? Hvernig væri að rannsaka það áður en lengra er haldið með fullyrðingum um aukinn drykkjuskap vegna slíks fyrirkomulags?