2.2.2017 10:30

Fimmtudagur 02. 02. 17

 

Dagblöð austan hafs og vestan innleiða ný efnistök fyrir áskrifendur að vefútgáfum sínum. Þar dregur þaulreyndur blaðamaður daglega saman það sem hann telur bera hæst í fréttum dagsins og setur í samhengi. The New York Times hefur tekið til við að setja 20 mínútur af efni í hljóðskrá sem menn geta hlaðið niður í hlaðvarp og hlustað á hvenær sem þeim hentar, úti að hlaupa eða í bílnum.

Ráðherrar Viðreisnar fara illa af stað og fylgi flokksins minnkar. Ráðherrarnir auka ekki fylgið með yfirlýsingum um að menn eigi að hætta að nota peningaseðla í viðskiptum, með því að skipa Svanfríði Jónasdóttur formann í nefnd um búvörumál eða halda fast í vanreifaða hugmynd um jafnlaunavottorð.

Þá birtast fréttir um snarfækkun stjórnenda fyrirtækja innan Félags atvinnurekenda sem telja að halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í fyrsta sinn um árabil segir meirihluti félagsmanna að ekki eigi að halda viðræðunum áfram. Einnig minnkar stuðningur við ESB-aðild Íslands verulega í þessum hópi. Aðeins tæplega 17% er því sammála að Ísland gangi í ESB en 56% eru því andvíg.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina, þreytist ekki á að vekja máls á blekkingariðju Dags B. Eggertssonar borgarstjóra varðandi húsbyggingar. Á ruv.is hafi 12. janúar birst röng fyrirsögn (ekki í eina skiptið) þar sem stóð: „Borgin byggir 300 stúdentaíbúðir á næstu árum“.

Guðfinna Jóhanna segir réttilega að Byggingarfélag námsmanna reisi íbúðirnar. Borgin innheimtir gatnagerðargjald af íbúðunum. Ný lög gera ráð fyrir að sveitarfélög leggi fram 12% af stofnvirði almennrar íbúðar. Til þessa hefur borgin ekki innheimt byggingarréttargjald af lóðum fyrir námsmannaíbúður. Nú hefur borgin ákveðið að grípa til þessarar gjaldtöku og fella hana niður enda nemi hún 12% af stofnvirði íbúðar.

Blekking Dags B. er þaulhugsuð fyrir utan að fyrirsagnarsmiður á ruv.is bætti um betur og jók á blekkinguna.

Í Morgunblaðinu birtist í dag frétt um að fulltrúar meirihluta borgarstjórnar undir formennsku Hjálmars Sveinssonar í umhverfis- og skipulagsráði hefðu fellt tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að leita umsagnar Vegagerðarinnar, lögreglunnar, Samgöngustofu og samtaka sveitarfélaga áður en skýrsla starfshóps um lækkun umferðarhraða á götum borgarinnar vestan Kringlumýrarbrautar yrði tekin til afgreiðslu.

Hroki meirihlutans undir forystu Hjálmars Sveinssonar er í samræmi við annað sem frá honum kemur. Stefna hans um byggingar án bílastæða og götur án bíla er í ætt við ofríkisstefnur sem þola hvorki skoðun né umræður.