Miðvikudagur 30. 12. 15
Fréttablaðið tilnefnir menn ársins af ýmsu tilefni. Í dag birtist mynd á forsíðu blaðsins af Kristínu Þorsteinsdóttir aðalritstjóra með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni efnahags- og fjármálaráðherra þar sem hún afhendir þeim blóm fyrir að hafa gert viðskipti ársins með samningi við kröfuhafa föllnu bankanna og búa þannig í haginn fyrir afnám fjárhagshaftanna sem hafa gilt í sjö ár.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bregst illa við viðurkenningunni sem í tilnefningunni felst og enn verr við forsíðumyndinni sem hún kallar af smekkvísi „mellumynd“ sjá hér. Myndin sýni „fjölmiðil koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum“ sem aftur njóti „góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils“. Þá segir Ólína:
„Myndin er óþægileg fyrir unnendur frjálsrar fjölmiðlunar og opinnar umræðu. Hún vekur óþægilegar minningar frá aðdraganda Hrunsins þegar lofgjörðir um „sterka“ (hægri sinnaða) stjórnmálamenn og útrásarvíkinga fylltu forsíður blaða og tímarita.[…]
Í því ljósi er þessi mynd eitt það óþægilegasta sem ég hef séð lengi. Hún er hvorki hlutlaus né upplýsandi. Hún er áróður þar sem saman tvinnast hagsmunir valdhafanna og fjölmiðilsins. Samtrygging.“
Þetta er merkileg yfirlýsing frá þingmanni Samfylkingarinnar. Í aðdraganda hrunsins var enginn stjórnmálaflokkur hallari undir eigendur Fréttablaðsins en einmitt Samfylkingin. Eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forystumaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu snemma árs 2003 í Borgarnesi þar sem hún myndaði bandalag með leynilegum eigendum Fréttablaðsins sameinuðust eigendur blaðsins og flokkurinn um tilraun til að bola Sjálfstæðisflokknum undir forystu Davíðs Oddssonar frá landstjórninni í þingkosningum vorið 2003.
Þá var boðskapurinn að sjálfstæðismenn siguðu lögreglunni á athafnamanninn Jón Ásgeir Jóhannesson og aðra Baugsliða. Sjálfstæðismenn sýndu þar með atvinnulífinu óvild. Þegar hæstiréttur felldi dóm í Baugsmálinu í júní 2008 sendi Ingibjörg Sólrún, þá orðin utanríkisráðherra í stjórn með sjálfstæðismönnum, frá sér yfirlýsingu sem sýndi að hún var enn á sömu bylgjulengd og Baugsmenn.
Sjálf Ólína Þorvarðardóttir sagði 7. júní 2008 í tilefni af dóminum: „Eftir því sem þetta mál [Baugsmálið] hefur staðið lengur, og því meira sem hefur verið um það fjallað, þeim mun frekar hef ég hallast á að fjármunum og tímanum, sem fóru í rekstur þess, hefði verið betur varið í annað.“
Hneykslun Ólínu Þorvarðardóttur nú ber ef til vill að skoða sem síðbúna yfirbót. Það er þó óvarlegt. Miklu nær væri að kenna hana við illkvitni eða öfund, hún breytir engu um stefnu og störf Samfylkingarinnar í aðdraganda hrunsins.