28.12.2015 16:20

Mánudagur 28. 12. 15

Uppnám varð á spjallsíðu sem Píratar halda úti, Pírataspjallinu, vegna orða sem Smári McCarthy lét falla þar sunnudaginn 27. desember og  „kvartaði yfir tröllaskap, persónuárásum og fávitalegum umræðum“ svo að vitnað sé í pistil hans á stundin.is í dag, 28. desember. Smári kynnir sig sem áhugamann „um tækni, pólitík og samfélagið allt“. Hann býr í Sarajevo í Bosníu-Herzegóvínu og rannsakar skipulagða glæpastarfsemi og spillingu á heimsvísu. Hann var meðal stofnenda Pírata á sínum tíma. Hann er formaður European Pirate Party, kjörinn á fyrsta ráðsfundi flokksins í júlí 2015.

Í pistlinum sem Smári birtir í dag segir hann „pólitískt ægivald“ yfir íslenskum fjölmiðlum „skammarlegt“ og gæði fjölmiðlunar „út í hött“, flestir fjölmiðlar virðist „sáttir við að láta frá sér hvaða rætnu drullu sem er“. Um alþingismenn segir hann: „Það er með ólíkindum að hægt hafi verið að finna svona mikið af fólki sem getur talað viðstöðulaust með rassgatinu.“

Ég hef ekki skoðað Pírataspjallið en þegar þeir tala á þennan veg um menn og málefni sem verður nóg boðið vegna þess sem sagt er á þeirri spjallsíðu má gera sér í hugarlund talsmátann þar.

Smári telur að umvandanir hans 27. desember hafi orðið til þess að umræðan á Pírataspjallinu „hafi smollið í nýjan farveg. […] Þjóðarsálin fékk smá valíum og allir eru hressir. Gott mál. Í bili,“ segir hann nú en bætir við um hættuna sem við blasi:

„Það mun koma sá tími þar sem enginn hreinlega man hvernig á að færa rök fyrir máli sínu, vera kurteis og gagnrýninn, og jafnvel stafsetja einföldustu orð. Kommentakerfið étur okkur öll lifandi.

Okkur er illt í þjóðarsálinni og heiftin stjórnar okkur. Þessi heift gefur fávitalegri umræðu forgang, heimilar aumkunarverða blaðamennsku, og leyfir valdhöfum að komast upp með að vera siðlaus mannvond fífl. Þessi reiði varpar skugga á allt sem við gerum. Ísland hefur ekki efni á hamingju.

Við verðum að breyta umræðuhefðinni.“

Er það leiðin að kurteislegum umræðum og breytingum á umræðuhefðinni að segja umræðuna „fávitalega“, blaðamenn „aumkunarverða“ og valdhafa „siðlaus mannvond fífl“?