27.12.2015 16:00

Sunnudagur 27. 12. 15

Muna nokkrir lesendur síðu minnar eftir hrakspánum um örlög bókaútgáfu í landinu síðsumars og haustið 2014? Válegar fréttir reistar á þessum spám settu sterkan svip á fréttir og umræðuþætti ríkisútvarpsins. Hvert var tilefnið? Að hækka ætti lægra þrep virðisaukaskatts, þar á meðal á bækur.

Í tilefni af fyrirhugaðri hækkun skattsins var 21. ágúst 2014 rætt við Egil Örn Jóhannsson í morgunútvarpi rásar 2. Hann vildi að enginn virðisaukaskattur yrði á bókum og í frétt um viðtalið sagði á ruv.is:

„Egill segir að jafnvel lítil hækkun á bókaverði geti haft veruleg áhrif á íslenskan bókamarkað.

„Á viðkvæmum markaði eins og íslenski bókamarkaðurinn er — við erum á örmarkaði — þá þyrfti ekki nema brot af þessu, til þess að valda verulegum vandræðum í íslenskri bókaútgáfu. Ég trúi ekki öðru en að ráðherrar séu meðvitaðir um þetta,“ segir Egill.“

Niðurstaðan á alþingi var að hækka lægra þrep virðisaukaskattsins úr 7% í 11% og þar með vöruverð um 3,7%.

Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við sama Egil Örn Jóhannsson 18. nóvember 2015 í tilefni af útkomu Bókatíðinda 2015 sem sýna að árið 2015 koma út fleiri bækur (654) en á árinu 2014 (637). Í frétt á ruv.is er þessi spurning lögð fyrir Egil:

Nú hækkaði virðisaukaskattur á bækur á milli ára, hefði ekki þróunin átt að vera öfug?

Egill Örn svarar:

„Jú það kemur mér einmitt ánægjulega á óvart að sjá að þróunin er þveröfug við það sem kannski mátti búast við í kjölfar virðisaukaskattshækkunar að við fjölgum útgáfubókum á árinu, sem er einkar ánægjulegt.“

Hin skáletraða spurning fréttamannsins ber með sér að hann trúði hrakspánum sem kynntar voru síðla árs 2014. Enginn vissi neitt um þróunina enda var spánum að sjálfsögðu ekki ætlað annað hlutverk en hræða stjórnmálamenn frá að hækka skattinn – þær voru dæmigerður hræðsluáróður. Alið var á honum af stjórnarandsæðingum og gagnrýnislaust í fjölmiðlum.

Í dag sunnudaginn 27. desember birti fréttastofa ríkisútvarpsins viðtal við Bryndísi Loftsdóttur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Á ruv.is  hefst fréttin á þessum orðum:

„Bóksala um jólin gekk vel og fór fram úr væntingum bókaútgefenda, og þá var áberandi hversu vinsælar ljóða og barna- og unglingabækur voru í jólapakkana þetta árið.“

Haft er eftir Bryndísi að bóksala um jólin hafi „gengið vel og farið fram úr björtustu vonum“.

Að lokum er það annað en hvort virðisaukaskattur er 7% eða 11% sem ræður áhuga á að skrifa, gefa út, selja og kaupa bækur.