26.12.2015 16:00

Laugardagur 26. 12. 15

Bertel Haarder. menningamálaráðherra Dana, sagði í viðtali við Jyllands-Posten um jólin að á nýju ári ætlaði hann að kynna til sögunnar það sem á dönsku er kallað „ny danmarkskanon over kulturværdier“, það er lista yfir dönsk menningarverðmæti sem hafa haft grundvallarþýðingu fyrir Danmörku.

Markmið Haarders með þessu framtaki er að skapa nýtt vopn gegn menningarlegri sundrungu, öfgahyggju og hryðjuverkum. Haarder er einna vinsælastur danskra stjórnmálamanna en hann kemur úr Venstre-flokknum (mið-hægri).

Í frétt Berlingske Tidende  segir að Haarder boði þetta nú þótt aðeins fáein ár séu síðan forveri hans í ráðherraembætti, íhaldsmaðurinn Brian Mikkelsen, hafi beitt sér fyrir að samdir yrðu „kanon-listar“, það er listar yfir það í danskri menningu sem helst hefði gildi. Mikkelsen skipaði árið 2004 nokkrar nefndir til að semja slíka lista, hvern á sínu sviði: arkitektúr, hönnun, myndlist, leiklist, bókmenntum, kvikmyndum og tónlist.

Árið 2006 lá fyrir listi með 108 verkum. Hann og allt starfið undir forystu Mikkelsens sætti harðri gagnrýni. Var jafnvel talið að fyrir ráðherranum vekti að skapa sérstök gildi að fyrirlagi borgaralegrar ríkisstjórnar til að ögra öðrum, ekki síst innflytjendum. Menningarmálaráðuneytið opnaði sérstaka vefsíðu fyrir Kulturkanonen en henni var lokað árið 2012 af þáverandi menningarmálaráðherra, Uffe Elbæk, sem sat fyrir Radikale venstre í vinstristjórn.

Bertel Haarder var menntamálaráðherra árið 2006 og beitti sér þá fyrir að saminn var historiekanon, listi með 29 atriðum sem skiptu miklu í sögu Danmerkur.

Víða um Evrópu fylgjast stjórnmálamenn náið með því sem danska ríkisstjórnin gerir til að styrkja innviði samfélagsins vegna alþjóðavæðingar og straums aðkomufólks til landsins. Utanríkisráðherra Finna hvatti á dögunum til þess að finnska ríkisstjórnin færi að danskri fyrirmynd eins og  sjá má hér.

Fyrir nokkru sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í blaðagrein að hann fylgdist náið með því sem Bertel Haarder segði um danska ríkisútvarpið og umsvif þess sem hann telur of mikil,