23.12.2015 17:30

Miðvikudagur 23. 12. 15

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og sérfræðingur fréttastofu ríkisins um málefni forseta Íslands var kallaður á vettvang til að segja álit sitt á orðum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét falla á Twitter þriðjudaginn 22. desember eftir að forsetahjónin höfðu birst í sjónvarpsfréttum þar sem þau afhentu matarpoka á vegum Fjölskylduhjálparinnar í Reykjanesbæ og Ólafur Ragnar býsnaðist að fólk neyddist til að standa í biðröðum eftir slíkum matargjöfum – að þessu hefði ekki verið útrýmt í þjóðfélaginu.

Ummæli Bjarna þykja sumum hvatskeytisleg, hann vék að veisluborðum á Bessastöðum og kostnaði við krásirnar þar. Forgangsröðin ætti að vera önnur. Líkingamál fer oft fyrir brjóstið á viðkvæmum.

Orð fjármálaráðherra eru títuprjónar á Ólaf Ragnar miðað við þá rökstuddu, fræðilegu gagnrýni á hann og embættisfærslu hans sem tveir fræðimenn við Háskóla Íslands birtu nýlega í fræðiritinu Stjórnmál og stjórnsýsla og ég sagði frá í dagbókinni 18. desember 2015. Það er líklega of stórt mál til að menn nái upp í það á Facebook eða í fjölmiðlum almennt.

Guðni Th. lét hjá líða að minna á hörð bréfaskipti Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Ólafs Ragnars um hvort setja bæri siðareglur um forsetaembættið eða spennuástandið á ríkisráðsfundum undir stjórn Ólafs Ragnars sem ráðherrar í stjórn Jóhönnu hafa lýst.

Á ruv.is má lesa þetta haft eftir Guðna Th.: „Það verður fróðlegt að sjá hvort forsetinn bregðist með einum eða öðrum hætti við aðfinnslum Bjarna Benediktssonar.“

Sagnfræðingurinn gerir því skóna að Ólafur Ragnar kunni að reyna að ná sér niðri á fjármálaráðherra á einhvern hátt. Því miður spurði fréttamaðurinn ekki um fordæmi, hvort forseti Íslands beitti þá sem gagnrýndu hans refsingu. Í lokin er þetta haft eftir Guðna Th.: „Það verður örugglega metáhorf á þetta nýársávarp [forseta Íslands 1. janúar 2016] sem venjulega er ekki þess eðlis að landsmenn bíði spenntir eftir því sem forseti hefur fram að færa.“

Ólafur Ragnar hefur byggt upp spennu vegna ávarpsins í nokkra mánuði, hann ætli þar að skýra frá áformum sínum á árinu 2016 þegar kjörtímabili hans lýkur og nýtt hefst. Í þinginu sagði Ólafur Ragnar oft að hann hyrfi frá því sem hann hefði boðað til að „greiða fyrir þingstörfum“. Ætli hann að bjóða sig fram er líklegt að hann tali eins og véfrétt í nýársávarpinu til að fipa hugsanlega andstæðinga og gefa þeim sem skemmstan tíma til undirbúnings. Spennufall jafngildir hugsanlegu framboði.