13.12.2015 20:30

Sunnudagur 13. 12. 15

Þjóðfylkingin náði ekki meirihluta í neinni af 13 héraðsstjórnunum í Frakklandi í seinni umferð kosninganna sem fram fóru í dag. Á eyjunni Korsíku sigruðu þjóðernissinnar en hin tólf héruðin skiptast nú samkvæmt spám jafnt milli Lýðveldissinna (mið-hægri) og sósíalista. Áður höfðu sósíalistar í meirihluta héraðanna en þeir geta þó bærilega unað við úrslitin í ljósi hinna mikilla óvinsælda ríkisstjórnar þeirra sem birtast í skoðanakönnunum.

Um klukkan 20.00 sýndu spár að Lýðveldissinnar fengju 41%, sósíalistar 39% og Þjóðfylkingin 20%.

Forystumenn Lýðveldissinna og sósíalista fögnuðu að tekist hefði að halda Þjóðfylkingunni í skefjum en hún hlaut mest fylgi í fyrri umferð kosninganna. Manuel Valls, forsætisráðherra sósíalista, sagði hins vegar að hættan af „öfga hægrimönnum“ væri enn fyrir hendi. Hann þakkaði kjósendum fyrir að hafa tekið til varna en hins vegar skyldu menn ekki láta blekkjast af sigrinum því að hættunni af hægri öfgamönnum væri enn fyrir hendi,

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, viðurkenndi ósigur hennar í kosningunum en í fyrri umferðinni fékk fylkingin flest atkvæði í sex héruðum.

Verði franska þingið ekki rofið eru næstu kosningar í Frakklandi forsetakosningarnar 2017. Kannanir nú sýna að Alain Juppé, lýðveldissinni, nýtur mesta fylgis 55% kjósenda. Hann keppir um að verða frambjóðandi við Nicolas Sarkozy, leiðtoga Lýðveldissinna, og François Fillon, fyrrv. Forsætisráðherra. Í þessari könnun sem birt var á sjónvarpsstöðinni France 2 fékk Sarkozy ekki nema 27% og François Hollande forseti ekki nema 24%.