8.12.2015 16:00

Þriðjudagur 08. 12. 15

Svavar Gestsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, þingmaður, ráðherra og sendiherra, skrifar lofsamlega umsögn um ævisögu Árna Bergmanns, samstarfsmanns síns á Þjóðviljanum, á vefsíðuna Herðubreið. Þar segir meðal annars:

„Ég kom á blaðið [Þjóðviljann] eftir að Magnús Torfi [Ólafsson] hætti, kynntist honum því ekki sem samstarfsmanni en talaði oft við hann mikið seinna um pólitík. Hann var ritari ríkisstjórnarinnar eftir að Björn Bjarnason var settur af þeim bekk að mínu frumkvæði. Við Magnús Torfi vorum sammála um allt; hann varaði mig sérstaklega við því að leggja lag mitt við Ólaf Ragnar Grímsson en honum hafði Magnús kynnst í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Ég tók ekki mark á þeim aðvörunarorðum.

Við Magnús Torfi störfuðum saman í forsætisráðuneytinu frá nóvember 1978, þegar Ólafur Jóhannesson réð hann sem blaðafulltrúa, þar til ég hvarf til starfa á Morgunblaðinu í október 1979. Þá hafði ég verið embættismaður í fimm ár í forsætisráðuneytinu. Tókst góður kunningsskapur með okkur Magnúsi Torfa enda báðir áhugamenn um alþjóðamál auk þess sem forsætisráðuneytið og skrifstofa forseta Íslands, sem þá var einnig í Stjórnarráðshúsinu, voru ekki fjölmennari vinnustaðir en svo að allir starfsmenn rúmuðust í litlu kaffistofunni í norðurenda efri hæðar hússins.

Eftir að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstjórn sína og hún tók að funda var ég ritari hennar eins og ég hafði oft verið í tíð Geirs Hallgrímssonar sem forsætisráðherra. Kom það meðal annars í minn hlut að gera tillögu um hvernig staðið skyldi að ritun og frágangi fundargerðanna og fylgiskjala með þeim. Þegar ég sat síðan í ríkisstjórn 20 árum síðar var þessum reglum enn fylgt.

Ólafur Jóhannesson fól mér að rita fundargerðir stjórnar sinnar og eftir að fundið var að því í blöðum að ég sinnti því starfi og gefið til kynna að það væri einhverjum ráðherranna þungbært ræddi ég málið við forsætisráðherra og þótti honum ástæðulaust að hlaupa á eftir slíkum kveinstöfum.

Nú leggur Svavar Gestsson lykkju á leið sína í umsögn um bók Árna Bergmanns til að upphefja sjálfan sig á minn kostnað. Ég man satt að segja ekkert eftir því hvernig þau mál þróuðust sem Svavar gerir að umtalsefni. Eitt er víst að aldrei urðu þau skuggi á samskiptum okkar Ólafs Jóhannessonar eða samstarfi okkar Magnúsar Torfa Ólafssonar. Skilji einhver orð Svavars á þann veg að hann hafi stofnað til leiðinda í Stjórnarráðshúsinu með afskiptum sínum er það misskilningur.