3.12.2015 19:00

Fimmtudagur 03. 12. 15

Alþjóðadagur fatlaðra er haldinn um heim allan í dag, hinn 3. desember. Fyrsti alþjóðlegi dagur fatlaðs fólks var haldinn af Sameinuðu þjóðunum árið 1992. Morgunblaðið segir frá því í dag að í fundargerð byggingarfulltrúa Reykjavíkur komi fram að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fengið leyfi til að breyta íbúðar­hús­næði í smá­vöru­versl­un með mat­væli og hafi borgarstjórinn jafnframt fengið „und­anþágu frá kröf­um um aðgengi fyr­ir alla í kjall­ara,“ eins og segir í blaðinu. Undanþágan er vegna fatlaðs fólks. Þetta verður varla vandræðalegra fyrir borgarstjórann.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti flutti stefnuræðu á þingi Rússlands í dag. Hann sagði Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta hafa gengið af göflunum og þess vegna látið skjóta niður rússneska sprengjuþotu. Pútín sagði: „Við viljum gjarnan vinna með Tyrkjum um hin viðkvæmustu mál og ganga lengra en bandamenn þeirra. Allah einn veit hvers vegna þeir gerðu þetta [skutu niður rússnesku vélina]. Allah hefur greinilega ákveðið að refsa valdaklíkunni í Tyrklandi með því að svipta hana vitinu.“ Þá sakaði hann Erdogan um að vinna með Daesh (Ríki íslams) og hét því að Rússar myndu „ekki gleyma þessari aðstoð við hryðjuverkamenn. Við höfum ávallt talið svik af hinu illa og skammarleg.“ Rússar ætluðu þó ekki að grípa til vopna gegn Tyrkjum en það væri misskilningur ef menn héldu Rússa ætla að láta við það eitt sitja vegna þessa „hryllilega stríðsglæps“ að banna innflutning á tómötum eða banna komu byggingarverkamanna til lands síns – þyngri refsing byði Tyrkja.