2.12.2015 19:15

Miðvikudagur 02. 12. 15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Hrafnhildi Schram listfræðing um bók hennar Nínu S. – ævisögu Nínu Sæmundsson, fyrsta íslenska kvenmyndhöggvarans. Nína náði langt á listabrautinni en ævi hennar er þó næsta harmsöguleg eins og kynnast má af lestri bókarinnar og samtali okkar Hrafnhildar. Crymogea er útgefandi bókarinnar en hún er ríkulega skreytt myndum auk fróðlegs texta Hrafnhildar. Var tímabært að gera hinni merku listakonu skil á þennan hátt. Verk Nínu eru sýnd í Listasafni Íslands um þessar mundir og fram í miðjan janúar. Samtal okkar Hrafnhildar verður frumsýnt kl. 20.00 (á rás 20 og tímaflakki Símans), síðan á tveggja tíma til fresti til kl. 18.00 á morgun.

Fréttamat ríkisútvarpsins er oft einkennilegt. Í kvöldfréttum miðvikudaginn 2. desember er gert að aðalfrétt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forætisráðherra hafi svarað fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur VG sem vaknaði hjá henni vegna þess að Tony Blair, fyrrv. forsætisráðherra Breta, baðst afsökunar vegna rangra trúnaðarupplýsinga og mistaka varðandi Íraksstríðið árið 2003. Tilefni fyrirspurnarinnar var í raun stórundarlegt. Sigmundur Davíð bendir réttilega á að bandarísk stjórnvöld skráðu Ísland á lista „hinna viljugu þjóða“ og embættismaður í íslenska utanríkisráðuneytinu áréttaði við þau að Ísland væri herlaust og gæti ekki stutt hernaðaraðgerðir. Undir lok svars síns segir forsætisráðherra:

„Í aðeins einu tilviki hefur Ísland haft beina aðkomu að ákvörðun um hernaðaríhlutun en það var vegna árásarinnar á Líbýu árið 2011.Ljóst má vera að ef til greina kæmi, af hálfu íslenskra stjórnvalda, að biðjast afsökunar á einhverjum þeim hernaðaraðgerðum sem ráðist hefur verið í með það að markmiði að steypa einræðisherrum af stóli koma vart önnur átök til álita en árásin á Líbýu þar sem ríkisstjórn Íslands var virkur þátttakandi í ákvörðun um hernaðaraðgerðir. Ekki verður þó lagt mat á það hér hvort tilefni eða forsendur séu fyrir slíkri afsökunarbeiðni.“

Í stað þess að beina athygli að þessu kjarnaatriði í svari forsætisráðherra þykir fréttastofunni mestu skipta að honum finnst Bandaríkjastjórn ekki hafa skráð Ísland rétt árið 2003 vegna fyrirvarans þá um herleysi. Svandís fyrirspyrjandi vill auðvitað frekar að rætt sé um þessa leiðréttingu á listanum en það sem gerðist 2011 þegar hún var umhverfisráðherra í ríkisstjórninni sem stóð fyrirvaralaust að árásinni á Líbíu.

.