Laugardagur 29. 08. 15
Í morgun klukkan átta var sálumessa yfir Árna Gunnlaugssyni lögfræðingi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Árni var hollur vinur klaustursins í marga áratugi. Systir Agnes sagði í stuttu ávarpi að þegar nunnurnar sem nú eiga klaustrið komu þangað að næturlagi í mars 1984 hefði Árni ásamt fleira fólki tekið á móti þeim með söng. Í morgun kvöddu nunnurnar hann með söng, þær sungu meðal annars lög eftir Árna.
Við veltum fyrir okkur hvað erlendum ferðamönnum þyki merkilegast að skoða í landi okkar. Um það má meðal annars fræðast með því að kynna sér alls kyns lista sem viðurkenndir ferðafrömuðir birta lesendum sínum hvort heldur á prenti eða netinu.
Nýlega birti Lonely Planet lista yfir 500 staði í heiminum sem væri þess sérstakt virði að skoða. Þar voru fimm staðir á Íslandi: Borgarfjörður eystri/Seyðisfjörður, Gullfoss, Jökulsárlón, Snæfellsnes og Vatnajökulsþjóðgarður, sjá hér
Þá hefur birst í blaðinu The Daily Telegraph listi yfir 30 staði sem menn eigi að skoða áður þeir hverfa yfir móðuna miklu. Þeirra á meðal eru svartar sandstrendur Íslands og norðurljósin, sjá hér.
Víða um lönd ræða menn á stjórnmálavettvangi hvernig best verði tekið á farand- og flóttamannavandamálinu í Evrópu. Þetta er mikið alvörumál og engin leið auðveld. Nú er hafin söfnun undirskrifta þar sem þess er krafist að tekið verði á móti 5.000 flóttamönnum hér á landi. Þetta sýnir í hvílíkt óefni getur stefnt sé ekki gaumgæfilega íhugað um hvað málið snýst. Um 4 milljónir manna eru í flóttamannabúðum vegna stríðsins í Sýrlandi. Að skapa þessu fólki bærilegan aðbúnað þar í biðinni eftir að stríðinu ljúki er mun líklegra til að létta raunir margra, fleiri en 5.000, en að velja fólk úr þessum hópi til flutnings til annarra landa.
Nýlega voru lögð fram drög að frumvarpi til nýrra útlendingalaga. Stjórnmálamenn ættu frekar á brjóta þau til mergjar og skýra fyrir umbjóðendum sínum hvað í þeim felst en að hefja kapphlaup og hrópa tölur um fjölda fólks sem taka eigi á móti hér á landi sem flóttamönnum. Hvarvetna blasir við að fari stjórnmálamenn of hratt á þessari braut kallar það á vanda sem vex þeim yfir höfuð.