28.8.2015 17:10

Föstudagur 28. 08. 15

Ástæða er til að staldra við í umræðum og ákvörðunum um menntamál. Ekki er heppilegt að ný stofnun, Menntamálastofnun, stigi fyrstu skref sín í hörðum ágreiningi um grunnþátt allrar kennslu, lestrarkennslu. Fleira hvetur til aðgátar.

Lárus H. Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, segir í Morgunblaðinu mánudaginn 24. ágúst, að skólinn hafi í haust boðið bæði þriggja og fjögurra ára nám til stúdentsprófs en aðeins 20 (7%) af 260 nýnemum hafi valið þrjú árin. Sannar þetta ekki hve fráleitt er að gefa nemendum ekki áfram val á milli þriggja og fjögurra ára náms í stað þess að setja þriggja ára reglu? „Þorri nemenda stefnir á háskólanám eftir stúdentsprófið og það liggur í loftinu að þriggja ára námið byggist m.a. á því að minnka námið. Það gæti hafa haft áhrif á þetta val,“ segir rektor.

Í Verslunarskóla Íslands stóðu stjórnendur frammi fyrir umsóknum 500 nemenda sem allir voru með yfir 9 í einkunn úr 10. bekk grunnskólans og var 60 þeirra hafna. Í Morgunblaðinu 28. ágúst segir að „prósentubrot“ hafi skilið milli þess hvort nemandi kæmist í skólann eða ekki. Er þetta ekki til marks um óeðlilega einkunnabólgu?

Þá er greint frá því í blaðinu að Menntamálastofnun vilji hæfniseinkunnir gefnar í bókstöfum en að baki þeim „standi lýsingar á hæfni nemenda í aðalnámskrá“.  Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskólans, spyr réttilega. „Hvernig eigum við að velja á milli 500 umsókna, þar sem allir eru með einkunnina A?,“ og bætir við: „Satt best að segja vitum við ekki hvernig við ætlum að gera það. Við gælum við þann möguleika að halda inntökupróf og erum að skoða málið.“

Hér stefnir í óefni. Að baki vandræðunum er einföld skýring. Marktæk próf í grunnskólum hafa horfið. Sú skoðun hefur verið viðurkennd að í prófum felist of mikil stýring! Ef mælikvarðar eru á reiki veit enginn hvar hann stendur. Markvisst hefur verið unnið að því að gera foreldrum ókleift að fá upplýsingar um stöðu skóla innbyrðis og þar með hæfni kennara. Samræmd próf eru íþyngjandi fyrir kennara en ekki nemendur. Fyrir hvorn hópinn eru skólarnir?