27.8.2015 18:15

Fimmtudagur 27. 08. 15

Viðtal mitt við Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér.

Á vefsíðu The Daily Telegraph segir að franska leyniþjónustan hafi sent út viðvörun um að í september kunni hryðjuverkamenn að reyna að granda farþegavél með flugskeyti. Þá hafi franski herinn gert áætlun um hvernig ná megi aftur valdi á hverfi í franskri borg eftir að íbúarnir hafi lagt það undir sig vegna andstöðu við öryggislögregluna og aðgerðir hennar. Haft er eftir heimildarmanni blaðsins að í Frakklandi megi finna svo marga af fjórðu kynslóð innflytjenda sem hafi hrifist af öfgahyggju að við öllu megi búast af þeirra hálfu.

Umræður um öryggismál í þessa veru magnast í Frakklandi eftir atburðinn í hraðlestinni frá Amsterdam til Parísar föstudaginn 21. ágúst þegar vopnaður hryðjuverkamaður var yfirbugaður af þremur Bandaríkjamönnum í hópi lestarfarþega. Sérfræðingar segja óhugsandi að maðurinn hafi verið einn af verki, að baki honum hljóti að hafa staðið skipulegur hópur íslamista sem hafi hafið ofbeldisherferð og muni aðeins herða hana.

Haft er eftir starfsmönnum DGSI, innri öryggislögreglu Frakklands, að þeim sé um megn að auka eftirlit með islömskum ofbeldismönnum sem séu fúsir að fórna lífi sínu til að valda sem mestum skaða. Þeir telja í raun heppni að ekki hafi tekist að vinna mannskæð hryðjuverk í Frakklandi eftir árásina á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París í janúar 2015.