23.8.2015 21:44

Sunnudagur 23. 08. 15

Augljóst er að Hillary Clinton á verulega undir högg að sækja vegna rannsóknar á hvernig hún hagaði tölvusamskiptum sínum sem utanríkisráðherra. Málið hefur elt hana frá því í mars og nú um helgina setti það til dæmis mikinn svip á umræður í sjónvarpsþættinum Meet the Press. Þar birtust brot úr ræðum Hillary til að sýna að hvernig þrengt hefur að henni í málinu. Þá var rætt við málsvara hennar meðal demókrata sem töldu hana komast frá tölvubréfunum aðrir voru annarrar skoðunar. Talið er Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, búi sig undir að hlaupa í skarðið ef Hillary neyðist til að draga sig í hlé eða jafnvel fara í prófkjörið hvort sem er.

Innan flokks repúblíkana eykur Donald Trump, auðmaður og fasteignaeigandi, forskot sitt. Athygli beinist ekki síst að honum vegna harðrar andstöðu hans við innflytjendur. Hann vill að reistur verði múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að stöðva ólöglega för fólks milli landanna auk þess sem hann vill flytja ólöglega innflytjendur úr landi. Þeim sem finnst hugmyndin um múrinn góð, hafna margir brottvísun og brottflutningi ólöglegu innflytjendanna sem eru um 11 milljónir.

Þetta baráttumál Trumps rímar við það sem ber sífellt hærra í stjórnmálaumræðum í Evrópu. Angela Merkel Þýsklandskanslari sagði á dögunum að hún mundi einbeita sér að vandanum vegna ólöglegra innflytjenda eftir að Grikkir væru komnir á beinu efnahagsbrautina. Um 900.000 innflytjenda leita skjóls í Þýskalandi í ár og til átaka kemur í þýskum bæjum og borgum vegna útgjalda við móttöku þeirra.