Laugardagur 22. 08. 15
Björt framtíð er furðuleg uppákoma í íslenskum stjórnmálum. Guðmundur Steingrímsson úr Framsóknarflokki stofnaði flokkinn með fólki úr Besta flokki Jóns Gnarrs hinn 5. febrúar 2012. Í fréttatillkynningu frá flokknum sagði þá:: „Á meðal nýbreytni í skipulagi má nefna, að flokkurinn mun reka málefnastarf sitt á netsíðu, allan sólarhringinn, allan ársins hring, og í forystu flokksins eru tveir formenn, sem skulu starfa saman og vera sammála um stórar ákvarðanir.“
Formaður var kjörinn Guðmundur Steingrímsson alþingismaður. Stjórnarformaður var hins vegar kjörin Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri.
Guðmundur var kjörinn á þing árið 2009 fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi. Árið 2007 bauð hann sig fram fyrir Samfylkinguna í SV-kjördæmi og tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður nokkrum sinnum. Hann sagði sig úr Framsóknarflokknum árið 2011 og starfaði sem þingmaður utan flokka þar til hann stofnaði Bjarta framtíð.
Stjórn Bjartrar framtíðar skipa 80 manns. Í hópnum er Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, hann er titlaður sendiherra flokksins á vefsíðu hans ásamt öðrum ESB-aðildarsinna, Elvari Erni Arasyni.
Heiða Kristín Helgadóttir birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni 15. desember 2014 um að hún ætlaði að „sleppa takinu, hleypa öðrum að og freista þess að hafa áhrif á samfélagið með öðrum hætti […] og hvíla dagleg afskipti af stjórnmálum um sinn“. Var kynnt að hún mundi blása nýju lífi í þjóðfélagsumræður á Stöð 2. Þau áform urðu að engu. Þá kom að því að Heiða Kristín þurfti að taka afstöðu til þess hvort hún tæki sæti á alþingi í haust sem varaþingmaður vegna fæðingarorlofs eins af þingmönnum Bjartrar framtíðar.
Heiða Kristín sagðist ekki setjast á þing nema Guðmundur Steingrímsson hætti sem flokksformaður. Hann varð við ósk hennar og verður nýr formaður kjörinn á flokksfundi 5. september. Guðmundur vill að formannskeflið gangi milli manna í flokknum á sex mánaða fresti enda sé slík skipan í ráðherraráði Evrópusambandsins, þar skiptist ríki á að hafa formennsku. Verður tekist á um þessa aðferð við formennsku í Bjartri framtíð á flokksfundinum.
Á ruv.is er haft eftir Guðmundi að hann verði „helvíti flottur óbreyttur þingmaður“ og hann telur „að þrátt fyrir gagnrýni Heiðu Kristínar muni starf þingflokksins ganga vel og segir að allir séu í stuði“.
Heiða Kristín íhugar formannsframboð. Um er að ræða valdabaráttu Gnarrista við aðra í flokknum.