20.8.2015 18:00

Fimmtudagur 20. 08. 15

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Guðmundur Ingason, eigandi og framkvæmdastjóri söluskrifstofu með sjávarafurðir til útflutnings, G. Ingason hf., síðan 1987:

„Þú [svo!] verðum við bara að vona að Pútín eða rússneska þingið hafi vit fyrir okkur, fyrst við getum það ekki með þessa nýju íslensku „pólitíkusa“. Ekki gott að blanda saman viðskiptum og stjórnmálum, sérstaklega þegar það bitnar svona alvarlega á okkur sjálfur og þjóðarhag.“

Þetta er sérkennilegt viðhorf í ljósi framkomu Valdimírs Pútíns og félaga við nágrannaþjóðir sínar og raunar okkur Íslendinga líka með því að setja innflutningsbannið á makríl og aðrar fiskafurðir. 

Greinarhöfundur lætur ekki við það eitt sitja að krefjast þess af lesendum blaðsins að þeir líti á mál frá sjónarhóli Pútíns heldur taki þeir einnig á sig skömm vegna verka hans og leiti síðan ásjár hjá honum. Þetta ber okkur að gera í von um það dugi til að fá Pútín ofan af ákvörðun hans um að banna innflutning á matvælum frá Vesturlöndum. Hann hefur þó ekki bannað munaðarvörurnar sem rússneska yfirstéttin vill njóta áfram.

Forseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, gekk nýlega fram fyrir skjöldu með magnaðri árás á Bandaríkjamenn og sakaði þá um að vilja gera Rússland gjaldþrota, sjá hér. Þennan mann og þingbræður hans á einnig að kalla á Íslendingum til bjargar.

Af hinum tilvitnuðu orðum verður helst ályktað að höfundur þeirra hafi ekki minnstu hugmynd um hvað þessi ágreiningur við Rússa snýst. Viti hann það en láti samt þessi orð falla á hann sér fátt til málsbóta.

Nú hefur verið tilkynnt að Marriott-hótelkeðjan hafi ákveðið að taka að sér rekstur hótelsins sem rís við hafnarbakkann hjá Hörpu. Þarna rísi fyrsta fimm stjörnu hótel landsins undir lúxusmerki Marriott-keðjunnar – Marriott Edition hótel. Þar verða 250 her­bergi auk veislu og fund­ar­sala, fjölda veitingastaða og heilsu­lindar.

Það verður dýrt að gista á þessum stað enda varla annað í spilunum miðað við kostnað við að byggja þarna og gjöld og álögur á hótelstarfsemi í landinu. Sé farið inn á vefsíðu Marriott Edition má sjá að glæsileikinn er ekki falinn og áform eru um að hótelum í þessum gæðaflokki fjölgi nokkuð á næstu árum. Verði Reykjavík skotið inn í framkvæmdaröðina á síðunni má segja að ekki sé leiðum að líkjast – eða hvað?