19.8.2015 18:15

Miðvikudagur 19. 08. 15

Í dag ræddi ég við Kristján Daníelsson, forstjóra Kynnisferða, í þætti mínum á ÍNN. Kynnisferðir eru stórfyrirtæki á íslenskum ferðamarkaði. Við Kristján ræddum starfsemi fyrirtækisins og þróunina í ferðamálum.

Síðdegis í dag var tilkynnt að SÍA II, fram­taks­sjóður í rekstri Stefn­is, hef­ði gengið frá kaup­um á 35% hlut í Kynn­is­ferðum. Selj­and­inn væri fjár­fest­inga­fyr­ir­tækið Alfa ehf. Í tilkynningu Kynnisferða sagði Kristján Daníelsson að rekstur fyrirtækisins hefði „tekið mikl­um breyt­ing­um á liðnum árum“, haldið yrði áfram að „stækka og efla fé­lagið á kom­andi árum“ með þátttöku hinna nýju fjárfesta.

Þeir sem horfa á samtal okkar Kristjáns munu fræðast um starfsemi Kynnisferða. Þátturinn verður sýndur á ÍNN í kvöld klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Þeir sem nota myndlykil sem gerir tímaflakk kleift geta séð þáttinn hvenær þeir kjósa eftir kl. 20.00.

Síldarvinnslan ehf. á Neskaupstað hélt aðalfund í dag. Í tilkynningu félagsins um fundinn segir að á honum hafi verið samþykkt að fresta afgreiðslu um ráðstöfun hagnaðar.  Ástæða þess sé hætta á að innflutningsbann til Rússlands á afurðum félagsins hafi áhrif á fjárstreymi þess til skamms tíma.  Verkfall dýralækna í 9 vikur í vor og innflutningsbann Rússa skapi óvenju háa  birgðastöðu félagsins.  Óvissa sé um útistandandi kröfur á stóra viðskiptavini í Rússlandi vegna innflutningsbannsins, 40% af framleiðslu uppsjávarvinnslunnar hafi farið á Rússlandsmarkað.  Í ljósi þessa hafi verið tekin ákvörðun um að fresta ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar vegna ársins 2014. Ekki verður grípið til uppsagna vegna innflutningsbannsins.  Starfsfólk fyrirtækisins geri sér hins vegar grein fyrir því að vinnan geti dregist saman einkum vegna tapaðra loðnumarkaða. 

Ákvörðun um frestun aðgreiðslunnar er tekin nokkrum sólarhringum eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra svaraði gagnrýni forstjóra Síldarvinnslunnar á stuðning við viðskiptabann á Rússa vegna yfirgangsins í Úkraínu meðal annars á þann veg að eigendur Síldarvinnslunnar ættu að bíða með að greiða sér út arð á næsta aðalfundi fyrirtækisins svo að nota mætti þá fjármuni til að dempa höggið vegna ákvörðunar Rússa um að setja innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir.