18.8.2015 18:30

Þriðjudagur 18. 08. 15

Hér er forvitnilegt innlegg í umræðurnar um makríl og Rússa sem birtist á visir.is í dag (18. ágúst):

„„Við erum í ágætum málum. Þetta er mikill skaði fyrir okkur en við erum ekkert að drepast.“ Þetta segir Guðmundur Kristjánsson, sem kenndur er við Brim, um stöðuna vegna viðskiptabanns Rússlands. Brim hefur nú selt mest af sínum makríl til Afríkulanda á borð við Egyptaland og Gana og eiga ekki miklar birgðir eftir.

„Auðvitað fengum við lægra verð, en við fengum samt miklu hærra verð en ef við hefðum þurft að bræða þetta.“

Guðmundur segir bannið vera mikið högg fyrir útgerðir en það hefði mátt vera fyrirséð að svo myndi fara þar sem Rússar hafi sett viðlíka bönn á önnur lönd í fyrra. Þá telur hann að ekkert fyrirtæki muni fara á hausinn vegna bannsins. Þau sé vön verri höggum.

Hann segir að viðskiptabann Rússlands sé pínulítið áfall miðað við veiðigjöldin 2012 og 2013. Nú framleiðir Brim makríl fyrir einn milljarð, en hefði hann verið seldur til Rússlands hefðu fengist 1.200 milljónir fyrir hann. Þá segir hann að fyrirtækið hafi greitt um einn og hálfan milljarð í veiðigjöld árin 2012 og 13.“

Að ofan birtist sjónarmið sem er í andstöðu við það sem áður hefur birst hér á síðunni, haft eftir nafngreindum mönnum sem sögðu makríl svo sérstakan í íslenskri lögsögu að ekki væri unnt að selja hann annað en til Rússlands. Þær fullyrðingar eru greinilega ekki réttar – það er unnt að finna aðra markaði.

Í fréttum segir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi kallað rússneska sendiherrann til fundar við sig í von um að geta fengið Rússa ofan af innflutningsbanni sínu. Ólafur Ragnar gat minnt sendiherrann á að 19. mars 2014 hafi hann í Bodö í Norður-Noregi á ráðstefnu i Nordland-háskóla sett ofan í við aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu fyrir að fara gagnrýnisorðum um yfirgang Pútíns og félaga á Krím-skaga og gagnvart Úkraínu. Taldi Ólafur Ragnar að með slíku tali væri unnt að eyðileggja 10 ára viðleitni til að efla samstarf norðurskautsríkjanna á einni klukkustund.