16.8.2015 22:00

Sunnudagur 16. 08. 15

Sannkallaðir hátíðartónleikar voru í Hallgrímskirkju í dag (og í gær) þegar oratorían Salómon  eftir Händel var flutt þar í fyrsta sinn á Íslandi undir stjórn Harðar Áskelssonar af Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlegu barokksveitinni í Den Haag og frábærum einsöngvurum. Þetta er mikið verk í þremur þáttum og tók flutningurinn alls 3 stundir og 45 mínútur (með tveimur hléum). Í dag var kirkjan þéttsetin og fögnuðu tónleikagestir flytjendum innilega eins og við átti eftir hinn glæsilega flutning.

Kirkjulistarhátíð hófst í Hallgrímskirkju sl. föstudag og er flutningur Salómons mesta stórvirki hátíðarinnar. Listaverk eftir Helga Þorgils Friðjónsson prýða kirkjuna, þar á meðal fimm málverk sem sýna krossfestinguna að baki altari hennar. Niður úr lofti kirkjunnar hangir stórt málverk eftir Helga Þorgils sem upphaflega var til sýnis skammt frá Öxarárfossi á Þingvöllum árið 2000 þegar minnst var 1000 ára afmælis kristni á Íslandi. Þar málar Helgi Þorgils ský á bláum himni.

Að þetta stóra málverk hangi þarna yfir kirkjugestum um miðbik kirkjunnar hefur að sjálfsögðu áhrif á hljómburð. Var greinilegt á tónleikunum í dag að málverkið þéttir og skerpir hljóminn, bætir hann með öðrum orðum. Hljómur Mótettukórsins var einstaklega magnþrunginn.

Í gær sagði ég hér frá vandræðum mínum vegna þess að ég fór að hvatningu Microsoft og uppfærði stýriforrit tölvu minnar úr Windows 7 í Windows 10. Í dag leysti ég vandann með því að fara aftur í Windows 7. Microsoft ætti að fullhanna þessi forrit sín áður en þau eru sett í loftið. Að nota viðskiptavini sína sem tilraunadýr er ekki til fyrirmyndar.