15.8.2015 19:30

Laugardagur 15. 08. 15

Reynsla mín af uppfærslu nýjunga frá Microsoft er ekki góð en þó læt ég ekki eftir mér að skipta við Apple nema með kaupum á iPhone og iPad. Nú hef ég uppfært úr Windows 7 stýrikerfi í Windows 10. Það tekur um það bil 45 mínútur og er í sjálfu sér ekki flókið. Þeir sjá um það allt hjá Microsoft, segja manni bara að taka því rólega.

Eftir uppfærsluna þarf að tryggja að forrit í tölvunni falli að stýrikerfinu. Allt virtist ætla að smella ljúflega saman þar til ég opnaði Word-forritið sem er hluti af Office 365 frá Microsoft. Á Word-síðunni birtist tilkynning um villu og var boðist til að laga hana. Þótt boðinu væri tekið gerðist ekkert.

Næsta skref var að leita hjálpar hjá Microsoft. Á vefsíðu fyrirtækisins birtist nafn Bryans. Hann svarar spurningum um þetta vandamál. Það snertir ekki aðeins Word. Aðrir glíma við að Excel eða Power Point verða óvirk eftir uppfærsluna. Bryan segir að þeir hjá Microsoft viti um þennan vanda og séu að „vinna í“ að leysa hann. Hann gefur ráð og fullyrðir að annað þeirra eða bæði eigi að gulltryggja farsæla lausn. Það er ekki reynsla mín. Eftir tilraunir í nokkra klukkutíma eftir forsögn Bryans er ég enn með lokað Word-forrit.

Af langri tölvureynslu á ég varadekk. Fyrir nokkrum árum hóf ég líka viðskipti við Dropbox og hef því aðgang að öllum skjölum „í loftinu“ án tillits til þess hvaða tölvu ég nota.

Í samskiptum við Microsoft undrast ég ekki vandræði af einhverju tagi. Þeir hefðu til dæmis mátt afmá þennan ágalla áður en þeir buðu mér að uppfæra í Windows 10. Vandræði mín eru þó smáræði miðað við það sem lesa má í bréfum til Bryans frá fólki sem á afkomu sína eða árangur í skóla undir því að geta lokið tölvuverkefni sínu fyrir ákveðinn tíma. Bryan lofar engu um hvenær hann leysir vandann.

Vafalaust líkar mér vel við Windows 10 ef ég kemst inn í Word. Án Word-aðgangs er stýrikerfið hins vegar stórgallað. Microsoft heldur að vísu að mér Bing-leitarforritinu sínu og eigin vafra. Þar ætla ég að halda mig áfram við Google og einnig Chrome fái ég að gera það í friði.