14.8.2015 19:15

Föstudagur 14. 08. 15

Furðulegt er að lesa ummæli ýmissa í netheimum eftir að Rússar ákváðu að beita okkur því óvinabragði að setja bann á innflutning á fisk. Bitnar ákvörðun þeirra um að beita ríki utan ESB ofríki líklega þyngst á okkur og brýtur í bága við allt sem viðgengist hefur í viðskiptum þjóðanna í tæpa sjö áratugi. Sovétmenn voru beittir viðskiptaþvingunum með banni á sölu hátæknivarnings til þeirra. Á þeim tíma seldu Kremlverjar Íslendingum á hinn bóginn olíu og keyptu af okkur ýmsan varning. 

Nú lætur Pútín eyða matvælum frá Vesturlöndum í beinni útsendingu og veldur þjóð sinni skaða með því að loka fyrir innflutning á sjávarafurðir (fyrir utan kavíar frá Ítalíu) þá rísa hér upp menn hver um annan þveran og skamma íslensk stjórnvöld og kalla Pútín „Íslandsvin“ eins og lesa mátti hjá einhverjum. Hvílíkur málflutningur.

Skömmu eftir að Pútín innlimaði Krím í mars 2014 í trássi við alþjóðalög kynnti Gunnar Bragi Sveinsson hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda, lýsti þjóðaratkvæðagreiðslu á Krím marklausa og sagði að sem EES-ríki mundi Ísland taka þátt í viðskiptaþvingunum með öðrum EES-ríkjum, það er Noregi og Liechtenstein auk ESB-ríkjanna. Ekkert af þessu fór leynt eins og sjá má í fjölmiðlum þess tíma. Að Íslendingar hefðu sagt skilið við þennan ríkjahóp á þessum örlagatíma var fráleitt.

Frá því að þetta gerðist hefur Pútín ekki haldið að sér höndum á hernaðarsviðinu. Eins og sjá má hér segja sérfróðir menn að heræfingar Rússa annars vegar og NATO hins vegar sýni að aðilar búi sig undir átök. Pútín hefur stóreflt rússneska herinn á norðurslóðum og nú er boðað stóraukið sóknarafl hersins við landamæri Finnlands, Eystrasaltsríkjanna og Póllands.

Við þessar aðstæður keppast hinir ólíklegustu menn við að búa til einhvern séríslenskan veruleika þar sem talað er um íslensk stjórnvöld eins og örlagavald þegar allt ofríkið er í boði Pútíns og félaga. Ríkisstjórn og utanríkismálanefnd alþingis standa fast við ákvörðunina sem var tekin strax í mars/apríl 2014. Að hopa frá henni er óðs manns æði.

Í fréttum í dag segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi rætt málið í síma við rússneskan starfsbróður sinn Dmitríj Medvedev. Takist íslenskum stjórnvöldum að fá Kremlverja til að láta af ofstæki sínu ber að fagna því.