12.8.2015 21:15

Miðvikudagur 12. 08. 15

Í dag ræddi ég við Hörð Áskelsson, organista í Hallgrímskirkju, í þætti mínum á ÍNN og má næst sjá hann kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.  Á tímaflakki Símans sést þátturinn fram á helgi. Við ræðum liststarfsemi í Hallgrímskirkju og sérstaklega Kirkjulistarhátíðina sem hefst nk. föstudag og um helgina verður óratorían Salómón eftir Händel flutt í kirkjunni – frumflutningur á henni á Íslandi.

Þegar rætt er um viðskiptabann Vesturlanda á Rússland vegna yfirgangs Rússa í Úkraínu er látið eins og ekkert bann hafi verið á viðskiptum við Sovétríkin. Vissulega var slíkt bann í gildi varðandi ýmsar hátæknivörur, einkum þær sem nota mátti til hernaðar. Sovéskir ráðamenn stjórnuðu viðskiptum við Vesturlönd á annan hátt en Pútín gerir. Þeir hefðu ekki gripið til sama ráðs og Pútín þegar hann birtir sjónvarpsmyndir af jarðýtum eyðileggja vestræn matvæli eða af brennsluofnum sem notaðir eru til að granda þeim örugglega á varanlegan hátt.

Í erlendum fjölmiðlum má lesa að eitt muni Pútín aldrei banna, það er innflutning á kavíar frá Ítalíu – hann komi nú helst í stað illfáanlegs rússnesks kavíars. Át á kavíar er stöðutákn Pútíns og félaga, án hans geta þeir ekki verið Í fjölmiðlum tengdum forsetanum er hins vegar hneykslast á ásókn almennings í parmesan-ost frá Ítalíu og spurt hvaða lífsnauðsyn kalli á að neysla hans sé leyfð í Rússlandi.

Forvitnilegt væri að vita hvort hin nýja rússneska yfirstétt neytti makríls. Það ætti að létta íslenskum fiskverkendum róðurinn. Hefur utanríkisráðuneyti Íslands kannað neysluvenjur háttsettra rússneskra ráðamanna á makríl?