11.8.2015 17:00

Þriðjudagur 11. 08. 15

Gerjunin á vinstri kanti stjórnmálanna nær ekki aðeins til Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar þar sem formenn eiga um sárt að binda heldur einnig til Pírata þar sem nýr þingmaður tekur sæti þegar þing kemur saman að nýju. Hún heitir Ásta Guðrún Helgadóttir, sagnfræðingur að mennt og yfirlýstur feministi sem meðal annars hefur unnið á ESB-þinginu og nú síðast hjá The Democratic Society. Samtökin eiga heimavöll í Bretlandi. Markmið þeirra er að stofna til samskipta milli einstaklinga sem hafa áhuga á njóta réttar síns til að hafa áhrif á stjórnmál, ræða þau og breyta þeim.

Ásta Guðrún skrifar í dag grein í Kvennablaðið sem lesa má hér . Þar ræðir hún um svonefnt deilihagkerfi og beinir sjónum sínum sérstaklega að vefsíðunni AirBnB og segir meðal annars:

„AirBnB virðist því vera draumur fjárfestisins og frelsi fyrir ferðamanninn – en martröð fyrir fólk sem vill búa á þessu svæði án þess að þurfa að lifa á núðlusúpum einum saman.“

Hún tekur upp hanskann fyrir þá sem hún vill ekki að þurfi „að lifa á núðlusúpum einum saman“ og lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Markaðurinn er mannanna verk og við þurfum að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvernig við viljum að hann virki svo að hann endi ekki í hruni. Það má alveg íhuga það hvort setja eigi sérstakar reglur um heimagistingu með hugmyndafræði deilihagkerfsisins að leiðarljósi og setja þannig skýr mörk á milli þess að deila sín á milli og að vera með íbúð til leigu á kapítalískum forsendum.“

Í þessum orðum birtist gamalkunn hugmyndafræði þeirra sem vilja sem mest opinber afskipti og stjórn. Píratar sigla undir fölsku flaggi, viðurkenni þeir ekki að hér er um vinstristefnu að ræða. Ofstjórn hennar stangast á við nafn flokksins svo að ekki sé meira sagt.

Í þingflokki Pírata eru þrír þingmenn. Aðhyllast þeir allir þessa stefnu nýja þingmannsins í hópnum? Hefur verið samþykkt innan flokksins að hefja sókn gegn AirBnB undir merkjum hans?

Í París eru um 50.000 íbúðir á vefsíðunni. Þar ræða menn ekki um „núðlusúpur“ þegar talað er um röskun á markaðnum vegna hennar heldur að lúxushótelin missi spón úr aski sínum.