10.8.2015 17:00

Mánudagur 10. 08. 15

París er ein mesta ferðamannaborg heims, kannski sú mesta. Árið 2014 sóttu 22 milljónir manna hana heim. Þarf því engan að undra þótt mannmergð sé mikil á stöðum með mest aðdráttarafl. Reyndin er einnig sú að stundum er erfitt að komast leiðar sinnar í mannhafinu. Í neðanjarðarlestum eru fluttar tilkynningar um aðgæslu vegna vasaþjófa. Í maí lögðu starfsmenn í Eiffel-turninum niður störf í 6 tíma til að mótmæla skorti á vernd fyrir gesti sína gegn vasaþjófum. Þeir hefðu allt að 4.000 evrum á dag við iðju sína í kringum turninn. Þá var skýrt frá því að í sumar mundu 26.000 lögreglumenn og verðir á vegum borgarinnar gæta öryggis í París.

Undanfarin ár hefur tíðkast að létta á innheimtu í stöðumælum í borginni í ágúst. Nú hafa andmælendur einkabílsins í borgarstjórninni knúið fram afnám þessarar ívilnunar.

Á bökkum Signu hefur enn á ný verið mynduð baðströnd í miðri borg. Þar á næstu daga að efna til Tel-Aviv-dags. Mótmæla andstæðingar Ísraels og vinir Palestínu því. Borgarstjórnin segist ekki ætla að láta undan þessum þrýstingi – það jafngilti uppgjöf fyrir öfgahyggju. Eftir að gíslar voru teknir í gyðingaverslun í París á liðnum vetri fjölgaði gyðingum sem töldu öryggi sínu ógnað í Frakklandi og fluttu til Ísraels.

Atburðir vetrarins, árásin á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo og almenn andúð á hryðjuverkamönnunum hefur fækkað heimsóknum ferðamanna frá Mið-Austurlöndum. Margir þeirra hafa árum saman lagt leið sína á dýrustu hótel borgarinnar, dýrustu veitingahús og verslanir.

Hagur þessara fyrirtækja hefur þrengst fyrir bragðið auk þess keppa lúxus-hótelin nú við Airbnb. Árið 2012 bauð Airbnb 7.000 íbúðir í öllu Frakklandi en nú eru þær 50.000 í París einni. Í boði eru íbúðir sem keppa við það besta sem hótelin bjóða, 380 til 400 íbúðir fyrir meira en 500 evrur á nóttu, þar af um 40 fyrir meira en 1.000 evrur og unnt er að leigja fyrir 1.700 evrur næturgistingu í íbúð sem sagt er að Brigitte Bardot hafi átt með 140 fermetra svölum og útsýni yfir alla borgina.

Hvarvetna þar sem keppt er um hylli ferðamanna þarf að hafa augun opin, bæta aðstöðu og standast keppinautunum snúning. Meðal þeirra ráða sem gripið er til í París er að heimila að hafa stórverslanir opnar á sunnudögum. Gestir frá fjarlægum löndum kusu London frekar en París til að geta verslað á sunnudögum.