8.8.2015 19:50

Laugardagur 08. 08. 15

Fyrstu færslu mína hér í dagbókinni um makrílinn setti ég inn á Facebook og síðan vakti ég máls á því sem fram kom á síðunni hér í gær þar sem ég vitnaði í kunnáttumann um vinnslu á markríl. Ýmsir hafa orðið til að draga orð hans í efa. Þar á meðal Sighvatur Bjarnason sem sagði:

Viðskiptabann Rússa á okkur yrði mikið áfall. Makríll sem veiðist við Ísland er ekki vara í hæsta gæðaflokki vegna þess að hann kemur horaður hingað og fitnar skart. Sú vara gengur ekki inn á Japan nema í undantekningum. Okkar makríll hentar inn á þessa markaði í austrinu og Afríku. Engin frekari vinnsla leysir það mál. Hugsanlega mætti framleiða makríl sem þróunaraðstoð fyrir lönd sem vantar gæða prótein. Mikil neysla er á makríl og hestamakríl í Afríku og mið Austurlöndum, enda gríðarlegt framboð. Rússlandsmarkaður er okkur gríðarlega mikilvægur, hann er vaxandi og sérstaklega fyrir dýrari afurðir. Rússar greiða svipað verð fyrir þorsk núna og Evrópuþjóðirnar. Þetta er alls ekki vanþróaður markaður.
Þá sagði Ívar Pálsson:
 
Þessi skoðun þín að þróun veiða, vinnslu og sölu á makríl héðan sé ábótavant á ekki við rök að styðjast. Virðið á magn var tvöfaldað á nokkrum árum og Sighvatur hér að ofan er sérhæfður í þessu, enda með góð rök. Asíumarkaðir vilja makrílinn þegar hann er orðinn nógu feitur, en það er bara rétt í lokin. Nú eru bókstaflega allar geymslur fullar, sem veldur kostnaði og vandræðum fyrir aðra vinnslu í landi, t.d. rækju. Allt er gert í nafni diplómatískrar samstöðu, en við vitum öll að viðskiptaþvinganir stríða gegn frelsi fólks og valda því að vörur og þjónusta fara í aðrar og óheppilegri leiðir en frjáls markaður leiðir til. Við lokum okkur sjálf úti með þessari fulgispekt við ESB/USA refskákina.

Ég þakka þessar ábendingar kunnáttumanna.