7.8.2015 20:10

Föstudagur 07. 08. 15

Í gær sagði ég álit mitt á þeim makrílveiðimönnum sem kvarta undan að geta ekki selt það sem þeir fá að veiða til Rússlands vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að standa með bandalagsríkjum sínum og Úkraínumönnum gegn yfirgangi Rússa. Vegna þessara orða minna fékk ég bréf þar sem sagði:

„Það er skrýtið hversu lítil umræða hefur farið fram undanfarin ár [um] hversu lítið púður hefur [verið sett] í að markaðssetja og selja uppsjávarafurðir eins og t.d. síld og makríl. Hef aðeins skoðað þessi mál í nágrannalöndum. Þar er mikil hefð fyrir neyslu á uppsjávarfiski, sérstaklega makríl og síld. Á engan er hallað þegar talað er um Finna og Svía sem meistara í að framleiða gæða afurðir úr þessum tegundum. Því miður hefur Íslendingum ekki tekist að framleiða neitt af viti. [...] Kaupfélagið á Fáskrúðsfirði [náði]í fyrra að losa alla síld um leið og MSC merking fékkst á vöruna. … [L]íklega eru ekki mikið fleiri en 6-7 menn sem kunna í dag að verka síld svo vel sé, það sést best á að í vöruhillum er mest af síld innflutt. Frekar er það dapurt að ekki skuli vera gert meira úr þessu? Nú er tækifærið að þróa þennan iðnað, læra hvernig samspil á kælingu, fituinnihaldi, kryddblöndum og slíku er púslað saman.“

Ég treysti að bréfritari viti um hvað hann er að tala. Í orðum hans felst hörð gagnrýni á þá sem veiða og vinna makríl. Þeir hafa greinilega valið „auðveldasta“ markaðinn, hinn rússneska, þar sem kröfur til gæða eru í samræmi við hæfni þeirra til að vinna úr aflanum. 

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) leggja mikla áherslu á virðiskeðjuna eins og fram kom á aðalfundi þeirra. Að hrópa á kúvendingu í utanríkisstefnu þjóðarinnar í stað þess að laga sölu afurða að pólitískum staðreyndum ræðst örugglega ekki af áherslu á virðiskeðjuna.

Þegar íslensk skip hófu makrílveiðar að einhverju ráði árið 2006 og næstu ár á eftir var gagnrýnt erlendis að aflinn væri ekki unninn til manneldis. Úr því var bætt en ekki meira en svo að fyrirtækin segjast eiga allt undir Rússlandsmarkaði. Þau verða einfaldlega að gera betur.