Sunnudagur 02. 08. 15
Kom í fyrsta sinn til Cannes og gekk um götur og torg þar sem kvikmyndastjörnunar spranga á hátíðinni miklu. Elsti hluti þessarar 73.000 manna borgar hefur yfir sér nokkurn sjarma.
Járnbrautarteinarnir eru við ströndina, stundum alveg í orðsins fyllstu merkingu. Á sandinum og í sjónum flatmagaði fjöldi fólks. Ströndin er opin almenningi að langstærstum hluta. Fjölskyldur koma með sólhlíf, handklæði og nesti, helga sér blett fyrir daginn og njóta sólar og sjávar. Eftir að hafa séð þetta frjálsræði skilur maður enn betur en áður reiði almennings yfir að kónginum af Sádí-Arabíu var ráðstafaður strandskiki til einkaráðstöfunar á meðan hann dvelst hér um slóðir með 1.000 manna fylgdarliði, flestir í því búa einmitt í Cannes, megi marka fréttir.
Hér heitir héraðið Côte d´Azur, eða Heiðbláa ströndin. Ber það nafn með rentu. Sjórinn við ströndina er víða heiðblár vegna þess að hvítur botninn skín í gegnum hafið.
Það er mikill misskilningur að Íslendingar eigi ekki almennt góð samskipti við Rússa. Með innlimun Krímskaga í Rússland í trássi við alþjóðalög og hernaði í austurhluta Úkraínu sem leiddi meðal annars til þess að farþegavél með tæplega 300 manns var grandað með rússneskri eldflaug hafa Rússar kallað yfir sig aðgerðir til staðfestingar á fordæmingu. Að sjálfsögðu eiga íslensk stjórnvöld að standa að refsiaðgerðum með öðrum ríkjum.
Þeir sem stunda viðskipti með fisk og aðrar vörur verða að taka mið af pólitískum staðreyndum og laga sig að þeim. Slíkt er auðveldara nú en fyrir 60 árum og ræðst af útsjónarsemi og dugnaði.